Egill Helgason, fjölmiðlamaður, greinir frá því að hann hafi fengið rausnarlega gjöf frá Íslandsbanka. Eða það má alla vega líta á það þannig, eða ekki.
„Verð að segja að ég komst í gríðarlegt jólaskap í dag þegar ég fékk þessa rausnarlegu jólagjöf frá Íslandsbanka vegna kreditkorts sem ég nota mikið,“ segir Egill í færslu á samfélagsmiðlum. „Heilar 1000 krónur í endurgreiðslu ef ég fer í bakarí og fæ mér kleinu og/eða kakó.“
Með færslunni birtir hann skjáskot af tilkynningu bankans. Þar er sagt að Íslandsbanki vilji þakka honum fyrir frábært samstarf á árinu með smá glaðningi. Það er vegna þess að hann sé Premium Icelandair korthafi.
„Þú færð 1.000 kr. inneign í formi endurgreiðslu í þínu næsta bakaríi sem þú getur nýtt í hvaða vöru sem er. Hvort sem þú færð þér rjúkandi kaffibolla, heitt kakó eða piparkökur, þá vonum við að þú njótir vel,“ segir þar.
Tilboðið er virkjað í appinu, greitt er með kortinu og Fríða endurgreiðir 18. næsta mánaðar. Hjá Fríðu sést í hvaða bakaríum er hægt að nota tilboðið til 20. janúar.
Sjá má fólk falla í stafi í athugasemdum yfir þessari gjöf. En sumir eru hneykslaðir.
„Djö…Eru þeir hallærislegir! Þetta er móðgun. Hvað fékk Bankastjórinn í jólagjöf ?!“ spyr ein. „Þessi “gjöf” Íslandsbanka (sem ég fékk reyndar líka) er hallærislegri en allt hallærislegt,“ önnur.
Enn önnur efast um að hægt sé að fá kaffibolla í bakaríi fyrir 1000 krónur. „Nærð ekki kaffibolla og kleinu. Það er alveg 2400kr,“ segir ein.