Í blaðinu er greint frá óvenjulegu þjófnaðarmáli sem kom upp á dögunum þegar tveir Íslendingar um þrítugt voru gómaðir við að stela jólatrjám í landi Skógræktarfélags Árnesinga í Grímsnesi.
Bændur á svæðinu höfðu orðið varir við óvenjulegar mannaferðir og voru tveir af fulltrúum í stjórn skógræktarfélagsins látnir vita, Kjartan þar á meðal. Þegar þeir komu á vettvang lögðu mennirnir á flótta og óku á brott með alls 94 furutré á jeppakerru. Kerran fannst svo í landi Snæfoksstaða og fór skógræktin með trén í sölu.
Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að virði þeirra trjáa sem mennirnir höfðu fellt væri nálægt einni milljón króna. Lögregla mun vera með málið til rannsóknar og hefur skýrsla verið tekin af mönnunum.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.