Árni Guðmundsson hefur verið kærður til lögreglu en gengur þó enn laus. Hann bendir sjálfur á þessa staðreynd í aðsendri grein, sem er kannski ekki furða enda virðist hann þurfa að gera allt sjálfur í þessu máli. Hann kærði sjálfan sig og nú þarf hann sjálfur að lýsa eftir lögreglunni svo hún megi ná fram réttlætinu gegn skaðvaldnum Árna.
Sakamaðurinn Árni er formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum. Fyrir ári kærði Árni sjálfan sig til lögreglu eftir að hann keypti áfengi í gegnum netverslun á Íslandi. Hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu, afhenti þeim illa fengna varninginn, sýndi þeim hvar Árni keypti ölið og kærði brotið samhliða því að játa sök í málinu.
„Síðan hef ég ekki fengið svör um hvar málið er statt þótt eftir hafi verið leitað.“ skrifar Árni í grein sinni sem hann stílar á Grím Grímsson, yfirlögregluþjón og nýkjörinn þingmann. „Veit ekki hvað veldur en vinna við að klára málið ætti ekki að vera embættinu ofviða.“
Árni rekur að það sé alvarlegra þó að fjögur ár séu síðan Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) kærði netsölu áfengis til lögreglu. Það mál hafi ekki fengið neina niðurstöðu.
„Slíkur seinagangur er með ólíkindum. Eftir nokkra daga hefst árið 2025! Hverju veldur? Nú hefur þú, kæri Grímur, verið opinber talsmaður lögreglu, m.a. varðandi kæru ÁTVR á netsölu áfengis.“
Grímur hafi í haust lofað því að hreyfing væri komin á málið. Í ágúst var málið á lokametrunum og í september hafði það verið sent ákærusviði. Nú þegar árið er senn á enda sé þó enn ekkert að frétta hvað varðar ákærur eða þá niðurfellingu og fjögur ár liðin frá kæru ÁTVR.
„Afsakið, en það er ekki hægt að bjóða upp á að þetta mál klárist ekki. Það er ekki hægt að bjóða upp á að fyrirkomulag áfengissölu molni niður fyrir allra augum meðan lögreglan klárar ekki af eða á.“
Breiðfylking félaga heilbrigðisstétta, forvarnarsamtaka og fleiri sendu í ágúst áskorun til yfirvalda um að bregðast við þeirri lýðheilsuógn sem felst í stóraukinni netsölu áfengis. Samt sem áður sé ekkert að frétta.
„Af hverju klárast ekki kæra ÁTVR frá 2020? Ekki ætla ég að halda því fram að dómsmályfirvöld hafi hvatt til fálætis. Það getur ekki verið? Maður vill auðvitað ekki trúa slíku. Ég vona að þú brýnir þína fyrrum kollega í lögreglunni til góðra verka. Gangi þér sem best í þingstörfum og þá sérstaklega í málefnum er varðandi réttindi barna og ungmenna, forvarnir og velferðarmál“