Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað mann af ákæru um kynferðisbrot gegn barni. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að maðurinn sé sekur en að ekki sé annað hægt en að sýkna hann þar sem málið hafi fyrnst í meðförum lögreglunnar.
Það kemur ekki skýrt fram hvaða lögregluembætti rannsakaði málið. Ákæra var gefin út af lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum en málið var upphaflega tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Meint brot mannsins fólst í að hafa greitt unglingsstúlku 5.000 krónur fyrir að senda honum myndir af sjálfri sér af kynferðislegum toga. Er hann sagður hafa millifært upphæðina í tvennu lagi á vinkonur stúlkunnar sem síðan hafi millifært peningana til hennar.
Var málið upphaflega tilkynnt í júlí 2021 en meint brot áttu sér stað í júní það ár.
Tjáði stúlkan lögreglu að maðurinn hefði haft samband við hana í gegnum Snapchat. Í stuttu spjalli þeirra á milli hafi hún skýrt tekið fram að hún væri 15 ára. Hann hafi beðið hana um myndir af brjóstum hennar, gegn greiðslu, sem hún hafi samþykkt að senda honum. Hún hafi tekið myndir af sjálfri sér á brjóstahaldaranum en gætt þess að ekki sæist í andlit hennar og sent honum og hann greitt áðurnefnda upphæð. Þegar hann hafi beðið um fleiri myndir hafi hún blokkað hann.
Í dómnum eru raktar all ítarlega skýrslutökur lögreglu yfir vinkonum stúlkunnar en samskipti hennar við manninn áttu sér stað á meðan hún var ásamt fleiri stúlkum á ónefndum stað á landsbyggðinni vegna fermingarveislu. Bað stúlkan að sögn vinkonurnar að vera milliliðir milli hennar og mannsiss og taka við greiðslunum frá honum svo að foreldrar hennar sæu þær ekki á reikningsyfirlitinu.
Í yfirheyrslu yfir manninum voru honum sýnd skjáskot af hans nafni á reikningsyfirlitum vinkvennanna. Hann neitaði að hafa verið í samskiptum við stúlkuna og fullyrti að hann myndi aldrei biðja svo ungar stúlkur um myndir.
Samskipti mannsins og stúlkunnar á Snapchat fundust ekki í síma mannsins en nafn hans sást á lista yfir fólk sem stúlkan hafði eytt af vinalista sínum. Myndin sem hún sendi honum fannst heldur ekki í síma mannsins. Fyrir lágu hins vegar gögn um að hann hefði millifært samtals 5.000 krónur á vinkonur stúlkunnar.
Fyrir dómi hélt maðurinn fast við neitun sína. Þegar honum var sýnt að hann hefði verið á vinalista stúlkunnar sagði hann það ekki þýða sjálfkrafa að þau hefðu átt einhver samskipti á Snapchat.
Hann sagðist áður hafa greitt stúlkum fyrir að senda sér myndir gegnum Snapchat en það hefði hann ekki gert í þessu tilfelli.
Aðspurður um þau gögn frá fjármálafyrirtækjum sem sýndu fram á millifærslur hans til vinkvennanna sagðist hann ekkert muna ástæður þeirra en hann hafi ekki verið kallaður til yfirheyrslu fyrr en rúmu ári eftir að þær hafi átt sér stað.
Vitni málsins sögðust sum hver fyrir dómi ekki muna vel atburðarásina en fram kom meðal annars að það sem kom málinu upp á yfirborðið var að móðir annarrar vinkonunnar, sem tók upphaflega við greiðslunni, hafði séð greiðslu frá manninum á reikningsyfirliti dóttur sinnar sem sagði henni þá söguna á bak við millifærsluna.
Í dómnum segir að öll vitni í málinu og stúlkan séu sammála um að myndasendingin séu ástæða þess að maðurinn millifærði peninganna til vinkvenna stúlkunnar. Gögn málsins staðfesti millifærslurnar og maðurinn véfengi þær ekki en hafi engar skýringar gefið á þeim.
Upphæðin passi líka við framburð stúlkunnar.
Dómurinn segir framburð mannsins ótrúverðugan í ljósi þess að það liggi fyrir að tengsl hafi orðið milli hans Snapchats-reiknings og reiknings stúlkunnar og að hann hafi millifært fé til vinkvenna hennar og að hún og öll vitni séu samhljóma í sínum framburði.
Dómurinn segir að þó myndin sé ekki lengur til staðar sé einhugur meðal vitna og stúlkunnar um að hún hafi verið tekin og miðað við lýsingarnar hafi myndin verið af kynferðislegum toga.
Það sé heldur ekkert sem sýni fram á að sá framburður stúlkunnar sé rangur að hún hafi skýrt tekið fram í samskiptum sínum við manninn að hún væri 15 ára.
Dómurinn telur því hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn sé sekur.
Í dómnum eru rakin þau ákvæði hegningarlaga sem maðurinn var sakaður um að hafa brotið, meðal annars um vörslu myndefnis sem sýni börn á kynferðislegan hátt.
Þar sem stúlkan hafi verið í brjóstahaldara á myndinni geti brot mannsins þó ekki talist stórfellt samkvæmt ákvæðum þágildandi hegningarlaga og í mesta lagi varðað sektum.
Í dómnum segir hins vegar að gögn málsins beri með sér að oftar en einu sinni hafi ekkert gerst í rannsókn málsins. Það hafi verið tilkynnt í júlí 2021. Síðan ekkert gerst fyrr en í janúar 2022 þegar vitnin hafi verið kölluð til skýrslutöku. Maðurinn hafi verið yfirheyrður í maí það ár en svo ekkert gerst aftur í rannsókninni fyrr en í janúar 2024 þegar tekin var skýrsla af einu vitni í gegnum síma og síðan gefin út ákæra í mars.
Samkvæmt hegningarlögum fyrnist brot á tveimur árum liggi ekki við því þyngri refsing en eins árs fangelsi.
Fyrningarfresturinn hafi byrjað að líða þegar brotið hafi átt sér stað í júní 2021. Hann hafi rofnað í maí 2022 þegar maðurinn var tekinn til yfirheyrslu. Honum hafi verið birt bótakrafa í júní sama ár. Síðan hafi ekkert gerst í rannsókninni fyrr en í janúar 2024 og ekki sé hægt að líta á að fyrningarfresturinn hafi verið rofinn allan tímann, samkvæmt ákvæðum hegningarlaga.
Maðurinn var því sýknaður á grundvelli þess að málið væri fyrnt.