„Það sem við höfum séð síðustu daga er merki um mikinn þrýsting. Há verðbólga og lítill hagvöxtur er versta hugsanlega útkoman,“ sagði Lars Christensen, hagfræðingur, í samtali við B.T. og bætti við að þetta sé það sem Rússar glíma við þessa dagana.
Hann sagði ýmsar ástæður valda því að rússneskt efnahagslíf hafi náð nýrri lægð. Nýjustu refsiaðgerðirnar „loki fyrir súrefnisstreymið“ sem það hefur haft. Ástæðan er að þær beinast að stærsta fyrirtæki landsins, Gazprom og Gazprombankanum, einnig hafi erlendir fjárfestar hætt að fjárfesta í landinu og ekki bæti úr skák að margir Rússar hafi flutt úr landi.
„Allir bíða eftir að allt springi í loft upp. Það er vel þekkt að það hefur verið mikill þrýstingur á rússneskan efnahag og það kemur á óvart að þetta hafi tekið svona langan tíma,“ sagði Christensen.
Hann sagði að efnahagserfiðleikarnir þýði ekki endilega að Pútín og stjórn hans muni hrökklast frá völdum eða að almenningur muni rísa upp gegn valdhöfunum. Það verði hins vegar sífellt erfiðara að halda stríðsvélinni gangandi. Mannfallið sé gríðarlegt um þessar mundir og um leið glími Pútín við slæmt efnahagsástand. Það verði að ganga út frá að þetta hafi mikil áhrif.