Aríel Jóhann Árnason, viðskiptafræðingur, ráðgjafi og framkvæmdastjóri, hvetur Icelandair til að skammast sín og bjóða íslenskum gæludýraeigendum upp á sómasamlega þjónustu. Aríel gerir þetta að umtalsefni í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og er tilefnið ákvörðun Icelandair að leyfa ekki, frá og með 1. nóvember síðastliðnum, að gæludýr séu flutt með farþegaflugi félagsins.
„Icelandair tók þá ákvörðun á árinu að kaupa ekki búnað í nýjar vélar flugfélagsins sem styður inn- og útflutning gæludýra og Bogi Nils Bogason forstjóri tekur fram að hagkvæmni félagsins og minnkun kolefnisspors valdi ákvörðuninni,“ segir Aríel í grein sinni og vísar í fund sem fulltrúar Hundaræktunarfélags Íslands áttu með Icelandair í lok október síðastliðnum.
Sjá einnig: Hundafólk reynir að telja Icelandair hughvarf
„Greinarhöfundur spyr sig: Ef kolefnissporið er svo mikið vandamál við flutning gæludýra, af hverju er ekki hægt að bjóða neytendum þann kost að kolefnisjafna gæludýraflutninginn með þar til gerðum vottuðum kolefniseiningum,“ spyr hann í grein sinni og bætir við að hingað til hafi það ekki verið tiltökumál að bjóða upp á óvottaða kolefnisbindingu, sem hann kallar falskeiningar, í boði Kolviðar.
„Ef á að fela sig á bak við afsakanir á borð við kolefnissporið, af hverju ekki að nýta þá falskeiningarnar, eða, enn betra, raunverulegar vottaðar og áreiðanlegar kolefniseiningar, til að jafna gæludýraflutninginn? Enn fremur er mér spurn af hverju Icelandair sé ekki slétt sama um kolefnissporið fyrst íslenska ríkisstjórnin hefur síendurtekið samið fyrir hönd íslensku flugfélaganna um undanþágu frá greiðslu á losunarheimildum til ETS-kolefnisjöfnunarkerfis Sameinuðu þjóðanna.“
Aríel heldur áfram og segir að ef til komi að Icelandair þurfi að greiða fyrir losun ferðanna, hvað sé því þá til fyrirstöðu að biðja neytendur um að greiða aukalega fyrir gæludýraflutninginn?
„Þessi ákvörðun setur hundafólk landsins marga áratugi aftur í tímann, og getur undirritaður staðfest að innflutningsferlið er nógu þungt, erfitt og dýrt nú þegar fyrir bæði menn og dýr. Að í ofanálag skapist algjör óvissa um flutningsmöguleika þessara fjölskyldumeðlima til landsins er grafalvarlegt mál. Hunda- og kattafjölskyldur eru mörg þúsund á Íslandi í dag sem líta á dýrin sem kæra og dýrmæta meðlimi fjölskyldunnar. Icelandair hefur árum saman verið tenging þeirra við umheiminn, ef svo má segja, enda flug eini raunhæfi kosturinn við að flytja dýrin til landsins.“
Aríel er ómyrkur í máli í garð Icelandair.
„Það er óásættanlegt fyrir Íslendinga að félag sem er upp til hópa í eigu flestallra lífeyrissjóða og banka landsins, hefur notið ríkisstuðnings í gríð og erg í gegnum árin og getað reitt sig á áskrift ríkisstofnana þegar kemur að opinberum ferðalögum, geti ekki boðið landsbúum á eyju í Atlantshafi þessa grunnþjónustu og enn fremur að Icelandair sem á að vera eitt dýrmætasta og rótgrónasta félag landsins styðji ekki lengur við fjölskyldur landsins. Og þar með eru engin íslensk flugfélög til sem styðja við gæludýraflutning til og frá Íslandi,“ segir hann og endar grein sína á þessum orðum:
„Greinarhöfundur hvetur því Icelandair til að skammast sín fyrir græðgina og falskar yfirlýsingar um kolefnisspor og bjóða heldur íslenskum gæludýraeigendum upp á sómasamlega þjónustu. Fyrir áhugasama er undirskriftalisti sem Icelandair mun berast aðgengilegur á island.is titlaður: „Hvetjum Icelandair til að styðja áfram við flutning á gæludýrum til og frá Íslandi.“