fbpx
Fimmtudagur 19.desember 2024
Fréttir

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 19. desember 2024 16:30

Hús Hæstaréttar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mál hjóna gegn Íslandsbanka verður tekið fyrir í Hæstarétti. Hjónin fóru í mál gegn bankanum með stuðningi Neytendasamtakanna en Héraðsdómur Reykjaness dæmdi bankanum í vil. Hefur málið almennt verið kallað vaxtamálið. Var málareksturinn reistur á þeim grundvelli að skilmálar bankans um breytilega vexti á lánum væru ekki í samræmi við lög en samkvæmt ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í málinu eru lánaskilmálar hér á landi ekki nægilega skýrir.

Í ákvörðun Hæstaréttar kemur fram að sá skilmáli sem mest var deilt um kvæði á um að breytingar á vöxtum tækju „meðal annars mið af breytingum á fjármögnunarkostnaði bankans, rekstrarkostnaði, opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði, stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, breytingum á vísitölu neysluverðs o.s.frv.“

Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins við meðferð málsins fyrir héraðsdómi kom fram að það samræmdist ekki tilkipun ESB um lánasamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði ef skilmálar og upplýsingar sem neytanda væru veittar væru ekki formlega og málfræðilega skiljanlegar eða gerðu honum ekki kleift að skilja aðferðina sem beitt væri við ákvörðun útlánsvaxta.

Ekki í góðri trú

Hvað varðaði skilmála vaxtabreytingaákvæðis skuldabréfsins, sem gefið var út vegna láns hjónanna, um rekstrarkostnað, opinberar álögur og annan ófyrirséðan kostnað tók EFTA-dómstóllinn fram að almennar tilvísanir til ófyrirséðrar mögulegrar hækkunar kostnaðar lánveitanda væru eðli málsins samkvæmt ósannreynanlegar fyrir hinn almenna neytanda. Hið sama ætti við um orðalag eins og „vextir á markaði“ og „breytingar á fjármögnunarkostnaði bankans“. Þá mælti það gegn því að skilmálinn teldist skýr að hann hefði að geyma orðalagið „meðal annars“. Loks mat dómstóllinn skilmála skuldabréfsins svo að hann bæri ekki með sér að uppfylla kröfur um góða trú og jafnvægi sem mælt væri fyrir um í tilskipun ESB um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. Skilmálinn yrði að teljast óréttmætur.

Í ákvörðun Hæstaréttar kemur fram að Héraðsdómur sýknaði bankann af kröfum hjónanna sem byggðu kröfu sína meðal annars á því að skilmáli skuldabréfsins um breytilega vexti bryti gegn ákvæðum laga um fasteignalán til neytenda. Einkum brytu skilmálarnir gegn ákvæðum laganna um breytilega vexti. Vildi Héraðsdómur hins vegar meina að ákvæðunum yrði ekki gefin sú efnislega merking sem leiddi af áðurnefndri tilskipun ESB og túlkun EFTA-dómstólsins á inntaki tilskipunarinnar væri andstæð ákvæðum íslensku laganna.

Enn fremur komst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að skilmálar Íslandsbanka væru hvorki óskýrir né röskuðu þeir til muna jafnvægi í samningssambandi bankans við lánþega sína.

Beint í Hæstarétt

Farið var fram á í beiðni til Hæstaréttar um áfrýjunarleyfi að málinu yrði áfrýjað beint til réttarins úr héraðsdómi án þess að það færi fyrst til Landsréttar eins og venjan almennt er.

Í ákvörðun Hæstaréttar segir að líta verði svo á að dómur hans í málinu geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá séu ekki til staðar í málinu þær aðstæður sem komið geti í veg fyrir að leyfi til áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli laga um meðferð einkamála.

Vaxtamálið mun því koma til kasta þessa æðsta dómstóls lýðveldisins.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Snorri gagnrýnir Samtökin  ’78: „Þrátt fyr­ir það sæt­ir maður­inn nú saka­mál­a­rann­sókn“

Snorri gagnrýnir Samtökin  ’78: „Þrátt fyr­ir það sæt­ir maður­inn nú saka­mál­a­rann­sókn“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Langflest vilja sjá ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins samkvæmt nýrri könnun

Langflest vilja sjá ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins samkvæmt nýrri könnun
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Hvað drífur þessa aðila áfram sem ákveða að byggja með þessum hætti, er það græðgi, er þeim sama um annað fólk?“

„Hvað drífur þessa aðila áfram sem ákveða að byggja með þessum hætti, er það græðgi, er þeim sama um annað fólk?“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Titringur í Hafnarfirði vegna Coda Terminal kosningar – Hart tekist á um „eitur“ sem eigi að dæla niður

Titringur í Hafnarfirði vegna Coda Terminal kosningar – Hart tekist á um „eitur“ sem eigi að dæla niður
Fréttir
Í gær

Eru matvöruverslanir að eiga verðsamráð í gegnum fjölmiðla? – Samkeppniseftirlitið varar fyrirtæki við

Eru matvöruverslanir að eiga verðsamráð í gegnum fjölmiðla? – Samkeppniseftirlitið varar fyrirtæki við
Fréttir
Í gær

Nágrannadeilur í Laugardal – Sakaði nágrannann um að reisa hættulega girðingu

Nágrannadeilur í Laugardal – Sakaði nágrannann um að reisa hættulega girðingu
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur allt annað en sáttur: „Annað eins vanhæfi hefur ekki sést“ – „Gjörsamlega grátbroslegt“

Vilhjálmur allt annað en sáttur: „Annað eins vanhæfi hefur ekki sést“ – „Gjörsamlega grátbroslegt“
Fréttir
Í gær

Segir Íslendinga hafa minni áhyggjur af öryggismálum en hinar Norðurlandaþjóðirnar

Segir Íslendinga hafa minni áhyggjur af öryggismálum en hinar Norðurlandaþjóðirnar