Snorri skrifar aðsenda grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann gerir kæru Samtakanna ’78 gegn Eldi S. Kristinssyni, sem var oddviti Lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í nýafstöðnum kosningum, að umtalsefni.
Eldur greindi frá kærunni í lok nóvember og lýsti því í skoðanagrein á Vísi að hann hefði verið boðaður í skýrslutöku hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum vegna málsins. Kæran sneri að sjö ummælum sem Eldur hefur látið falla á síðastliðnum tveimur árum, meðal annars í aðsendri grein í Morgunblaðinu og á Facebook.
Snorri byrjar grein sína í Morgunblaðinu á að vísa í ein tiltekin ummæli sem Eldur er kærður fyrir:
„Alþingi heldur að karlmenn geti fætt börn. Þessi lög eru í bága við bæði barnasáttmála SÞ og í bága við úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu er varðar rétt barns til þess að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Manneskjur sem fæða börn kallast konur. Konur sem fæða börn eru alltaf líffræðilegar mæður barna sinna. Alveg óháð hvað vanstillt Alþingi segir.“
Um þetta segir Snorri:
„Þetta skrifaði maður á Facebook þann 3. apríl 2024. Hann hefur í ljósi ummælanna verið kærður til lögreglu fyrir hatursorðræðu. Þótt sannarlega sé til fólk sem er ósammála og aðhyllist það sjónarmið að karlmenn geti fætt börn er þessum frjálsborna manni þó heimilt að hafna fullyrðingunni og lýsa sinni eigin skoðun. Í því felst tæplega refsiverð hatursorðræða heldur virðist tjáningin öllu heldur varin af stjórnarskrá. Það sama gildir um lagalegar útleggingar mannsins og þá skoðun hans að Alþingi sé „vanstillt“. Þrátt fyrir það sætir maðurinn nú sakamálarannsókn, var boðaður í skýrslutöku til lögreglu og nú er svo komið að kæran er orðin að alþjóðlegu fjölmiðlamáli, sem fjallar um tjáningarfrelsi á Íslandi.“
Það skal tekið fram að Eldur er kærður fyrir fleiri ummæli en þessi hér að framan.
Snorri segir í grein sinni að það skipti máli að sá sem leggur kæruna fram séu Samtökin ’78, sem njóti verulegs fjárstuðnings ríkisvaldsins í samræmi við ákvörðun fráfarandi ríkisstjórnarflokka. „Á sama tíma var maðurinn, þegar kæran var lögð fram, sjálfur kominn á gildan framboðslista til Alþingis,“ segir Snorri.
Hann bætir við í grein sinni í Morgunblaðinu að vitaskuld sé það fréttnæmt þegar samtök, sem Alþingi fjármagnar, einsetji sér að sækja frambjóðanda til saka sem gagnrýnir hugmyndafræði samtakanna og þingið um leið.
„Að sönnu eru einnig tiltekin í kærunni önnur ummæli mannsins sem lýsa heift og fyrirlitningu og eru alls ekki við hæfi í siðgæddri umræðu. En samtök sem njóta eins ríks fjárstuðnings frá ríkisvaldinu verða að gæta sérstaklega að ábyrgð sinni og blanda ekki saman lögmætum viðhorfum og meintri hatursorðræðu. Þar eru stjórnvöld komin ískyggilega nálægt beinum tilraunum til að refsa borgurum fyrir tjáningu. Ef því er leyft að viðgangast getur almenningur ekki dregið aðrar ályktanir en að hin margumtalaða hatursorðræða sé ekkert annað en bara orðræða sem stjórnvöld hata.”
Snorri bætir svo við að ef félagasamtök, sem reiða sig alfarið á ríkisvaldið og séu þar með í vissum skilningi orðin hluti þess, gerist stórtæk í ritskoðun á samfélagsmiðlum séum við komin á hálan ís.
„Sama hvort mönnum líkar það betur eða verr hefur fólk rétt til þess að tjá sig um grundvallarþætti í heimsmynd sinni, eins og að karlar geti ekki fætt börn. Þar á fólk ekki að venjast því að hinn eða þessi armur ríkisvaldsins sigi á það lögreglu fyrir skoðun, sem hefur vel að merkja ekki verið umdeild þar til á allra síðustu árum.”
Snorri endar grein sína á þeim orðum að tjáningarfrelsi sé meginþáttur í frjálsu samfélagi en nútíminn hafi útvegað nýjar og ísmeygilegar leiðir til að grafa undan því.
„Í því ljósi þarf greinilega að árétta að sannleikurinn verður ekki til hjá ríkisvaldinu og það er ekki hlutverk þess að framfylgja honum. Það er síðan annar misskilningur að stuðlað verði að félagslegum framförum með því að neyða fólk með lögregluvaldi til að samþykkja hugmyndir sem misbjóða skynsemi þess og lífssýn. Slíkt kerfi hefur aldrei gefið góða raun.“
Eftir að greint var frá kærunni í lok nóvember sagði Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna ’78, að samtökin myndu ekki sitja undir því aðgerðarlaus þegar einstaklingur sem um margra missera skeið hafi haldið uppi lygum um hinsegin fólk og sérstaklega trans fólk.
„Hann fullyrðið í einum ummælum að Samtökin ’78 séu að grooma eða tæla börn. Í öðrum ummælum kallar hann trans konur barnaníðinga. Við teljum að slík ummæli séu óverjanleg og vega einfaldlega að öryggi starfsfólki okkar, sjálfboðaliða og alla hinsegin fólks samfélaginu,“ sagði Helga í samtali við Vísi.