fbpx
Sunnudagur 09.febrúar 2025
Fréttir

Óánægjualda rís vegna umdeildra kaupa og áskrifendur flýja- „Það er fráleitt að kaupa sorpritið Mannlíf til þess að Reynir Traustason megi eiga áhyggjulaust ævikvöld“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 19. desember 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að fullyrða að fréttir af yfirvofandi kaupum Sameinaða útgáfufélagsins, útgefanda Heimildarinnar, á netmiðlinum Mannlífi hafi komið mörgum á óvart og víða skapað titring. Náin tengsl eru á milli félaganna en ritstjóri og eigandi Mannlífs, Reynir Traustason, er hluthafi í Sameinaða útgáfufélaginu og er að auki faðir framkvæmdastjóra Heimildarinnar, Jóns Trausta Reynissonar. Þá er ritstjóri miðilsins, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, sambýliskona Jóns Trausta.

Þórðarmenn yfirgefa skútuna

Mikil óeining er innan hluthafahóps Sameinaða útgáfufélagsins vegna kaupanna enda efnistök og ásýnd miðlanna gjörólík. Heimildin er áskriftamiðill sem gefur út blöð á 1-2 vikna fresti og leggur meðal annars áherslu á rannsóknarblaðamennsku á meðan Mannlíf er netmiðill sem treystir á auglýsingatekjur eingöngu og skrifar efni í hlandgulum æsifréttastíl.

Vísir greindi fyrst frá málinu í gærkvöldi og í kjölfarið fór að hrikta í stoðunum. Skömmu síðar var greint frá því að tveir stjórnarmenn Sameinaða útgáfufélagsins, þeir Vilhjálmur Þorsteinsson og Hjálmar Gíslason, hefðu ákveðið að segja sig úr stjórninni vegna óánægju með hin fyrirhuguðu kaup. Vilhjálmur og Hjálmar voru miklir stuðningsmenn Þórðar Snæs Júlíussonar, fyrrverandi ritstjóra Heimildarinnar, og má leiða að því líkum að átökin við brotthvarf hans hafi haft sitt að segja varðandi ákvörðun tvímenninganna. Kaupin á Mannlíf eflaust dropinn sem fyllti mælinn.

En það er ekki bara innan félagsins sem óánægjualda hefur risið. Áskrifendur Heimildarinnar virðast sumir hverjir yfir sig hneykslaðir á ákvörðuninni og telja að miðlarnir tveir eigi enga samleið.

Vill ekki að króna renni til Reynis

Einn af þeim er Atli Viðar Þorsteinsson sem ásamt Morgunblaðinu lagði Reyni Traustason og Mannlíf í dómsmáli á tveimur dómsstigum vegna skrifa miðilsins upp úr minningargrein um bróður hans. Atli Viðar segist hafa stutt Heimildina með áskrift en hin fyrirhuguðu kaup gera það að verkum að hann ætlar að slaufa áskriftinni enda hefur hann ekki mikið álit á Reyni.

Eflaust er það nöturleg staðreynd fyrir Atla Viðar að Reynir hefur verið hluthafi í Sameinaða útgáfufélaginu frá upphafi og þar með notið tekna af áskrift Atla Viðars á Heimildinni.

Verið að bjarga pabba úr skuldafeninu

Axel Jón Ellenarson, samskiptastjóri Sameykis, er annar áskrifandi sem er afar ósáttur við gjörninginn. „Áhugavert að stjórn Heimildarinnar telji farsælt að kaupa sorpmiðil sem tapaði 30 milljónum króna á síðasta ári. Nema bjarga verði pabba sínum úr skuldafeninu sem hann er í,“ skrifar Axel Jón í færslu á Facebook-síðu sinni. Í athugasemdum greinir hann svo frá því að hann hafi sagt upp áskrift sinni og það segjast íslenskufræðingurinn Eiríkur Rögnvaldsson og fyrrum alþingismaðurinn Þór Saari einnig hafa gert.

Eiríkur bætti svo við eigin færslu um ákvörðun sína. „Ég hef verið áskrifandi að Heimildinni frá upphafi, og var einnig áskrifandi að Stundinni og styrkti Kjarnann. Mér finnst mikilvægt að styrkja óháða fréttamennsku en það er fráleitt að kaupa sorpritið Mannlíf til þess að Reynir Traustason megi eiga áhyggjulaust ævikvöld. Þess vegna hef ég sagt áskrift minni að Heimildinni upp.“

Færsla Eiríks kveikti mikil viðbrögð og voru allnokkrir áskrifendur sem fullyrtu að leiðir Heimildarinnar og þeirra væri að skilja.

Elín G. Ragnarsdóttir, stjórnarformaður Heimildarinnar, ákvað að tjá sig á þræðinum og leiðrétti algengan misskilning sem virðist grassera.

„Þetta er ekki rétt túlkun á þessum orðum Reynis um áhyggjulaust ævikvöld. Hann var að fagna því að hann yrði laus við áhyggjur af því að stýra fréttamiðli, ekki að tala um að hann væri að hagnast, enda fær hann ekkert til sín.“

Heiða B. Heiðarsdóttir, sem er hluthafi í Sameinaða útgáfufélaginu og hefur starfað lengi fyrir miðilinn, sendi einnig um ákall til áskrifenda um að staldra við:

„Mikið væri gott ef þið sem hafið verið ánægð með Heimildina mynduð aðeins hinkra með gremjuna og leyfa okkur að njóta vafans um að hér sé eitthvað gruggugt í gangi. Mögulega hefur framganga okkar hingað til verið þannig að það væri óhætt. Þetta mun allt verða skýrt þegar og ef af þessum kaupum verður.“

„Blasir að breyta megi heiti blaðsins í Familie Journalen“

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, er annar sem tjáir sig um viðskiptagjörninginn. „Ég skil ekki hvaða ávinningur felst í kaupum á Mannlífi (nema fyrir pabbann). Það þarf einhver að stafa ofan í mig þessa viðskiptasnilld,“ skrifar Kristinn sem verður kveikjan að heitum umræðum.

Heiða B. var ein þeirra sem lét til sín taka í þræðinum en hún eyddi síðan út öllum færslum sínum nokkru síðar.

Annar sem lætur í sér heyra er fjölmiðlamaðurinn Árni Snævarr og honum er ekki skemmt.

„Ég hef verið styrktarmaður Heimildarinnar, og áður Kjarnans og Stundarinnar frá upphafi. Ég er ýmist sjálfur eða þökk sé vinnuveitanda mínum líka áskrifandi/stuðningsmaður ýmissa erlendra miðla; Politiken, Aftenposten, Dagens Nyheter, New York Times, Guardian Le Monde og Mediapart. Allir þessi fjölmiðlar senda styrktaraðilum með reglubundnum hætti nokkrar línur og láta mann finna að maður skipti einhverju máli. Held ég hafi aldrei fengið eina línu frá Heimildinni. Blaðið hefur krafist upplýsinga um allar koppa grundir en gefur litlar sem engar upplýsingar um sjálft sig, t.d. eignarhlut og áhrif Reynis Traustasonar. Blaðið sagði ekki aukatekið orð um að annar ritstjóra hefði verið hrakinn á brott, en að vísu fylgdu rætnar persónuárásir í hans garð á samskiptamiðli. Nú hafa þeir sem stóðu að Kjarnanum verið flæmdir á brott í kjölfar ritstjórans og helstu þungavigtarmanna utan fjölskyldunnar. Sennilega verður þagað þunnu hljóði um það í Heimildinni. Þær skýringar sem tveir eigenda hafa gefið hér á þessum þræði eru vægast sagt ekki sannfærandi og fela í raun ekkert annað í sér en að gefa þeim styrktarmönnum sem hér hafa tjáð sig fingurinn. En nú blasir að breyta megi heiti blaðsins í Familie Journalen,“ skrifar Árni.

Hann ýjaði svo að því að hann íhugaði að slaufa áskriftinni en sú færsla hvarf þó út í tómið.

Segist ekki koma nálægt kaupunum

Ritstjórinn Ingibjörg Dögg gaf síðan út yfirlýsingu fyrir skömmu þar sem hún áréttaði að möguleg yfirtaka Sameinaða útgáfufélagsins hefði ekkert með ritstjórn Heimildarinnar, sumsé hana og Jón Trausta, að gera.

Það myndi aldrei koma til greina að sameina ritstjórnir þessara miðla eða að ritstjórn Heimildarinnar kæmi að útgáfu Mannlífs – eða öfugt. „Ef af yrði þá yrði um að ræða tvo ólíka miðla sem reknir eru af sama útgáfufélagi, sem rekur nú þegar Heimildina, Vísbendingu og ensk fréttabréf. Heimildin mun áfram sinna sínu hlutverki sem fjölmiðill sem veitir aðhald og kafar dýpra.“

Rifjar hún upp að þau sambýlisfólkið og Reynir hefðu haldið í sitt hvora áttina, það er að segja Mannlíf og Stundina (sem síðar varð Heimildin), frá dögum þeirra á DV vegna ólíkra áherslna.

„Það er því ljóst að ritstjórnarstefna Mannlífs yrði endurnýjuð undir Sameinaða útgáfufélaginu. Í nýrri mynd yrði Mannlíf væntanlega léttari miðill og áhugadrifinn, rekinn undir formerkjum faglegrar blaðamennsku.“

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Heimildarinnar

Þá segir hún að ranglega hafi verið fullyrt í frétt Vísis að hún hefði eitthvað með yfirtökuna að gera.

„Þar var því meðal annars haldið fram að það hafi verið markmið mitt að taka yfir Mannlíf, sem síðar var leiðrétt, enda hef ég aldrei haft slík markmið. Hið rétta er að stjórn Sameinaða útgáfufélagsins fer með málið. Mitt hlutverk er að ritstýra Heimildinni og halda utan um þá ristjórn. Ég get þó skilið forsendur stjórnar Sameinaða útgáfufélagsins – sem hefur yfirlýsta stefnu um að halda úti fleiri miðlum. Eins er rétt að taka fram að vegna tengsla hefur framkvæmdastjóri Sameinaða útgáfufélagsins ítrekað áréttað gagnvart stjórn að hann komi ekki að ákvörðun um yfirtöku á Mannlífi, heldur sé það stjórnar að skoða málið og taka afstöðu til þess,“ skrifar Ingibjörg Dögg.

Þá staðfestir hún það sem blasað hefur við að átök hafi geisað innan stjórnar útgáfufélagsins um skeið.

„Varðandi átök innan stjórnar þá hafa þau verið viðvarandi undanfarna mánuði og tekið á sig ýmsar birtingarmyndir, sem hafa meðal annars beinst beint að mér, öðrum stjórnendum í fyrirtækinu, stjórnarmeðlimum og stjórnarformanni. Mín nálgun hefur fyrst og fremst falist í því að reyna að miðla málum á milli ólíkra sjónarmiða og ná fram sáttum innan stjórnar til að skapa vinnufrið. Þær tilraunir hafa ekki borið árangur, eins og sjá má.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir ríkið víst eiga rétt á að krefja óskráða flokka um endurgreiðslu

Segir ríkið víst eiga rétt á að krefja óskráða flokka um endurgreiðslu
Fréttir
Í gær

Guðrún tekur slaginn við Áslaugu Örnu og Snorra

Guðrún tekur slaginn við Áslaugu Örnu og Snorra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta eru stærstu landeigendurnir á Íslandi

Þetta eru stærstu landeigendurnir á Íslandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnar lá ósjálfbjarga heima hjá sér í 8 klst. – Hvetur fólk í sömu stöðu til að fá sér öryggistæki

Ragnar lá ósjálfbjarga heima hjá sér í 8 klst. – Hvetur fólk í sömu stöðu til að fá sér öryggistæki
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda