Þar er til dæmis rætt við arkitekt sem segir að mikið hafi verið lagt upp úr friðsæld, útsýni og sólarljósi þegar hann var í námi en nú finnist honum fólk „haft eins og búrhænsni“.
Kveikjan að umfjöllun Morgunblaðsins er umræða um vöruhúsið í Suður-Mjódd og nálægð þess við íbúðabyggingu á svæðinu. Blaðið ræddi til dæmis við Pál Jakob Líndal umhverfissálfræðing í vikunni og sagði hann að borgin hljóti að vera komin í þrot með þéttingarstefnu sína. Dæmin um mjög þétta byggð eru mun fleiri.
Arkitektar – sumir að minnsta kosti – virðast taka undir þetta en í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að þeir hefðu ekki viljað koma fram undir nafni af ótta við að það kynni að skerða starfsmöguleika þeirra.
„Mér finnst hræðilegt hvað það er verið að byggja nærri umferðaræðum,“ segir arkitektinn sem Morgunblaðið ræddi við og bætti við að höfð væri minnsta mögulega fjarlægð milli húsa þannig að fólk horfir á milli glugga.
„Það er ekki skrítið að fólk sé að upplifa kulnun og streitu ef híbýlin eru ekki lengur mannsæmandi, alltof lítil og dimm,“ segir hann og nefnir að áður fyrr hafi tveggja herbergja íbúðir jafnan verið um 70 fermetrar en í dag sé algengt að þær séu um 50 fermetrar. Þá séu svalir hafðar litlar og jafnvel látnar snúa í norður sem áður fyrr hvarflaði ekki að nokkrum manni.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.