Móðir tíu ára drengs greinir frá því að hann hafi orðið fyrir líkamsárás af hendi þriggja eldri drengja við Rimaskóla síðdegis í dag. Drengirnir sem réðust á hann voru á aldrinum 14 til 16 ára.
„Hann er mjög aumur í maganum og enn þá í miklu sjokki,“ segir móðirin Kristín S. Hall við DV. En hún greindi frá líkamsárásinni í íbúagrúbbu í Grafarvogi í dag.
Sonur hennar, sem er 10 ára gamall, varð fyrir árás rétt eftir skólalok í dag við Rimaskóla. Þrír eldri piltar, líklega á aldrinum 14 til 16 ára réðust á hann eftir að hann neitaði að gefa þeim boltann sinn.
Fyrst héldu tveir þeirra í hann og sá þriðji kýldi hann í magann. Svo tóku þeir af honum skólatöskuna og köstuðu henni á milli sín. Eftir það hlupu þeir í burtu þegar þeir heyrðu önnur börn koma.
Í færslunni gaf Kristín lýsingu á drengjunum og bað fólk að hafa samband í einkaskilaboðum ef fólk þekkti til þeirra.
Sá sem kýldi son hennar var með gleraugu, í blárri úlpu, hvítum snjóbuxum og með græna húfu.
Annar var í svartri úlpu, svörtum snjóbuxum, með hvíta húfu og dökkur á hörund.
Sá þriðji í jólapeysu og svörtum buxum.
„Því miður þá hefur enginn komið fram,“ segir Kristín aðspurð um hvort tilkynningin hafi borið árangur til þessa.