Mikil óvissa ríkir um áframhaldandi rekstur götumarkaðar í Kolaportinu en leigusamningur borgarinnar við ríkið, varðandi húsnæðið að Tryggvagötu 19, rennur út um áramótin. Húsið er í eigu ríkisins en borgin hefur leigt það. Borgin hefur síðan leigt húsnæðið út til rekstraraðila götumarkaðarins. Það félag skuldar borginni um 200 milljónir króna í vangoldna leigu fyrir söluplássin. Rekstraraðilinn, Kolaportið ehf, hefur verið tekinn til gjaldþrotaskipta og er skiptastjóri Lögmannastofan LOGOS.
Til lengri tíma er framtíð Kolaportsins í óvissu en núna liggur fyrir að starfsemi í húsinu verður með óbreyttu sniði út janúar 2025. Þetta kemur fram í svari Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, samskiptafulltrúa borgarinnar, við fyrirspurn DV um framtíð Kolaportsins. Eva segir í skriflegu svari sínu:
„Framkvæmdasýslan og Reykjavíkurborg eru sammála um að framlengja leigusamning um húsnæði Kolaportsins um einn mánuð eða til loka janúar. Starfsemi getur þannig haldið áfram með óbreyttu sniði í Kolaportinu út janúar en eftir það verður breytt fyrirkomulag á rekstri hússins.“