Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur sýknað Stefán Einar Stefánsson, fréttamann á Morgunblaðinu, af kæru Salvarar Gullbrár Þórarinsdóttur, leikkonu, vegna ummæla sem hún taldi stríða gegn siðareglum blaðamanna. Stefán Einar, sem er ekki félagi í Blaðamannafélagi Íslands, neitaði sjálfur að viðurkenna að siðanefndin hefði lögsögu yfir honum og því tók hann ekki til varna.
Tilefni kærunnar voru ummæli sem Stefán Einar lét falla um Salvöru í þættinum Spursmálum Morgunblaðsins þann 22. október síðastliðinn undir liðnum af „Af vettvangi fjölmiðla“. Þar sakaði hann Salvöru um að hafa hvatt til eignaspjalla á utanríkisráðuneytinu í tengslum við mótmæli stuðningsfólks Palestínu. Sagðist hann vonast til þess að þær „brjáluðu hugmyndir“ Salvarar myndu ekki enda í áramótaskaupinu í ár en leikkonan er ein af handritshöfundum þess.
Þátturinn var sýndur viku eftir að mótmælendur á vegum Félagsins Íslands-Palestínu skvettu rauðri málningu á inngang og stétt utanríkisráðuneytisins við Austurbakka.
Í kæru Salvarar kemur fram að hún telji ásakanir Stefáns Einars „tilhæfulausar og alvarlegar“. Þá hafi ummæli hans um „brjálaðar hugmyndir“ hennar dregið úr trúverðugleika hennar sem höfundar.
Siðanefnd taldi að ummæli Stefán Einars undir áðurnefndum dagskrárlið falli undir tjáningafrelsi blaðamanna þar sem persónulegar skoðanir höfunda séu í fyrirrúmi og því var hann sýknaður af kærunni.