Samfélagsrýnirinn og ráðgjafinn Marinó G. Njálsson leggur til að eigendur hins umdeilda atvinnuhúsnæðis við Árskóga kaupi fjölbýlishúsið sem það skyggir á. Grundvallarregla sé að ganga ekki á rétt annarra umfram það sem maður er sjálfur til í að sætta sig við.
„Hæstiréttur hefur ákveðið að taka fyrir mál vegna deilu um tré í garði nágrannans. Deilt er um hve há trén mega vera án þess að þau hamli því að nágrannarnir geti „notið þeirra réttinda sem þau almennt mættu búast við að fasteignum þeirra fylgi, svo sem sólar, birtu og útsýnis“,“ segir Marinó í færslu á samfélagsmiðlum í dag. „Annað mál, með ekki ósvipuðum rökum, er í umræðunni þessa dagana. Þ.e. íbúar í Búsetahúsnæði við Árskóga í Reykjavík fengu óvæntan nágranna í formi veggs, sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Íbúarnir hafa einmitt borið því fyrir sig að þeir geti ekki lengur notið réttinda svo sem „sólar, birtu og útsýnis“, en Veggurinn hefur svipt þeim þessu öllu.“
Sýnist Marinó að í máli nágrannana í Kópavogi sem deili um hæð trjáa felist einnig niðurstaða í því hve langt sé hægt að ganga í að byggja atvinnuhúsnæði sem skyggir á íbúðarhúsnæði næstu lóðar.
„Ég legg hins vegar til, að eigendur atvinnuhúsnæðisins kaupi fjölbýlishúsið og leysi málið því á farsælan hátt,“ segir Marinó. „Þeir geta síðan flutt þangað sjálfir, þar sem ljóst má að þeir eru algjörlega sáttir við að hafa grænan fimm hæða vegg við hliðina á svölunum sínum. Séu þeir hins vegar ekki sáttir við að fá hvorki birtu né útsýni í húsnæði sínu, hvernig datt þeim í hug, að íbúum í fjölbýlishúsinu væru sáttir við það? Það er algjör grundvallarregla, að ganga ekki á rétt annarra umfram það sem maður er sjálfur til í að sætta sig við.“