Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi og nýkjörinn þingmaður Flokks fólksins, segist eiga erfitt með að skilja hvernig ferlíkið í Breiðholti var reist. Um er að ræða fremur kalt og flatt vöruhús sem hefur risið við Álfabakka 2, nágrönnum til lítillar gleði enda þykir húsið ekkert augnayndi. Hún veltir því fyrir sér hvort þeir sem stóðu að uppbyggingunni hafi í engu haft hagsmuni Breiðhyltinga í huga.
Kolbrún skrifar á Facebook:
„Ég er að reyna að skilja hvernig það gat gerst að þessir aðilar, hönnuðir og eigendur vöruskemmunnar í Álfabakka 2a, hafa haft brjóst í sér til að byggja með þessum hætti, loka fyrir útsýni úr stofuglugga fólks og á engum tímapunkti sett sig í spor þeirra sem þarna búa. Hvar er kærleikurinn, tillitssemin og allt þetta sem manni var kennt, að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig? Hvað drífur þessa aðila áfram sem ákveða að byggja með þessum hætti, er það græðgi, er þeim sama um annað fólk? Ég veit ekki hvað skal halda.“
Kolbrún, sem er menntaður sálfræðingur, segir að það þurfi að horfa á málið með augum sálfræðinnar, það sé það svakalegt. Hún tekur undir með Arkitektafélagi Íslands, en félagið sagði í yfirlýsingu í gær að það þurfi næmni og skilning að hanna borgarumhverfi. Það hafi ekki verið í háviðum haft í Álfabakka enda kom enginn arkitekt nálægt hönnun ferlíkisins.
„Ég segi að þeir sem fá þá miklu ábyrgð þurfi að geta sett sig í spor annarra, geta upplifað hlutina á eigin skinni sem þeir ætla öðrum. Í þessu tilfelli hannaði ekki arkitekt húsið eftir því sem mér skilst en það ætti ekki að skipta máli. Að setja sig í spor er ekki endilega eitthvað sem lærist í háskóla.“