Karlmaðurinn sem hlaut 12 ára dóm fyrir brot í nánu sambandi og stórfellda líkamsárás með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra þann 9. desember síðastliðinn heitir Þorsteinn Hermann Þorbjörnsson og er 63 ára.
Þorsteinn hefur notið nafnleyndar hingað til og nýtur nafnleyndar í dómnum sem birtur var 11. desember.
Eiginkona hans, Jakobína Lind Ævarr Jónsdóttir, var 49 ára. Þau eignuðust tvo syni saman og Þorsteinn á dóttur frá fyrra sambandi.
Þorsteinn var ákærður þann 12. júlí fyrir manndráp og stórfelld brot í nánu sambandi, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 22. apríl, svipt eiginkonu sína lífi, en „ákærði beitti hana margþættu ofbeldi og misþyrmdi henni í aðdraganda andláts hennar, en atlaga ákærða beindist meðal annars að kvið, höfði, hálsi, bringu, brjóstkassa og útlimum. Af atlögunni hlaut A margvíslega áverka“, eins og nánar er tilgreint í dómi héraðsdóms. Í öðrum lið var hann ákærður fyrir brot í nánu sambandi þann 6. febrúar.
Synir hans og eiginkonu hans heitinnar kröfðust sex milljóna hvor í miskabætur, en þeim voru dæmdar fjórar milljónir hvorum fyrir sig. Þorsteinn var einnig dæmdur til að greiða útfararkostnað upp á tæpa 1,5 milljón, 6.377.793 krónur í sakarkostnað, og 2.341.750 í málskostnað sem renni í ríkissjóð.
Dómurinn hefur vakið umræðu í samfélaginu, bæði vegna nafnleyndar hins dæmda allt frá upphafi og í dóminum sjálfum, og vegna lengdar dómsins og að Þorsteinn er ekki dæmdur fyrir manndráp.
Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, sagði í viðtali við Vísir.is að dómurinn sé vonbrigði.
„Við erum alltaf að reyna að berjast fyrir því að við séum að senda skilaboð út í samfélagið um að heimilisofbeldi og kvennamorð séu á sama stað og önnur morð, annað ofbeldi. Fyrr erum við ekkert að fara að vinna þessa baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.“
Linda segir furðu sæta að dómurinn sé ekki þyngri en 12 ára fangelsi. Í dóminum er einnig greint frá fjölda atvika þar sem lögregla var kölluð til heimilis hjónanna vegna ofbeldis, allt aftur til ársins 1999. Lindu grunar að dómurinn sé vægari en ella vegna þess að um heimilisofbeldi er að ræða:
„Maður hefur það á tilfinningunni að það vinni gegn dómnum að þetta sé heimilisofbeldi, að þetta langvarandi hræðilega ofbeldi sem hefur átt sér stað skuli enda svona. Ef þetta hefði verið utanaðkomandi aðili sem hefði komið inn á heimilið og framið slíkan verknað, því ef maður les dóminn þá er verknaðurinn greinilega til þess fallinn að valda miklum skaða, þá hugsar maður sig um hvort dómurinn hefði hljómað öðruvísi.“