Frjálsíþróttadeild FH harmar þá stöðu sem aðalstjórn íþróttafélagsins er komin í hvað varðar fjárreiður og rekstur knattspyrnuhússins í Kaplakrika, Skessunnar.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórnarfundi deildarinnar í dag.
„Stjórn frjálsíþróttadeildar FH harmar þá stöðu sem aðalstjórn FH er komin í hvað varðar fjárreiður og rekstur Skessunnar, knattspyrnuhúss í Kaplakrika. Samkvæmt skýrslu sem Deloitte vann fyrir Hafnarfjarðarbæ er margt óljóst og umdeilanlegt hvað varðar bókhald og meðferð fjármuna svo vægt sé til orða tekið. Þær upplýsingar sem þar koma fram eru skellur fyrir íþróttastarfsemina í Hafnarfirði. Það skal tekið fram að frjálsíþróttadeildin hefur aldrei fengið greiðslur frá aðalstjórn FH vegna rekstrartaps enda hefur deildin kappkostað að hafa sinn rekstur réttum megin við núllið í gegnum árin.“
Kolsvört skýrsla Deloitte hefur verið til umfjöllunar í dag en þar er fjallað um óskipulag í bókhaldi íþróttafélagsins við uppbyggingu Skessunnar. Meðal annars hefur athugasemd verið gerð við greiðslur til formanns FH, Viðars Halldórssonar sem fékk í sinn hlut tæplega 73 milljónir króna, eða hátt í sjö prósent af heildarkostnaði uppbyggingarinnar. Skessan fór um þrjú hundruð milljónum fram úr áætlun. Stór hluti af heildarupphæðinni fór í gegnum félag sem er í eigu bróður Viðars, Jóns Rúnars Halldórssonar.
FH glímir nú við alvarlegan fjárhagsvanda og hafa skuldir aukist um rúm 500 prósent frá árinu 2017, eins og rakið er í frétt Heimildarinnar. Hafnarfjarðarbær hefur krafið félagið um skýringar á kostnaði. Deloitte rakti mikla óreiðu í bókhaldi Skessunnar. Óreiðan var í raun slík að það tók Deloitte óþarflega langan tíma að vinna skýrsluna sína.