„Við erum komin að mörkum þess sem er einfaldlega boðlegt. Borgin hlýtur að vera komin í þrot með þessa þéttingarstefnu og þetta skeytingarleysi gagnvart fólki um að hleypa því ekki að skipulagsmálum,“ segir hann við Morgunblaðið og bætir við:
„Að byggja svona vegg í 14-15 metra fjarlægð, fyrir framan glugga hjá fólki, er bara nokkuð sem á ekki að geta gerst. Það er fráleitt að bjóða upp á þetta.“
Mikið hefur verið fjallað um málið undanfarna daga og sagði DV til dæmis í gærkvöldi frá ungum manni sem á búseturétt í einni af íbúðunum sem hefur orðið verst úti. Hann segir að ástandið sé skelfilegt og hafi haft afar neikvæð áhrif á lífsgæði hans sem og tveggja páfagauka sem hann heldur. Hann er vongóður um að leyst verði úr málinu með skaðabótum eða að vöruskemman verði lækkuð.
Sjá einnig: Hvítar línur birtast á „græna veggnum“ við Álfabakka – „Fuglarnir mínir eru bara orðnir þunglyndir“
„Þetta er alveg skelfilegt. Það sem ég kunni best að meta við þessa íbúð var birtan og útsýnið. Nú sé ég ekkert nema „græna vegginn“ og dagsbirtan hingað inn til mín hefur nánast horfið,“ sagði maðurinn í viðtalinu.
Benti hann einnig á að það sjáist best á tveimur páfagaukum sem hann heldur sem gæludýr. Frá því að húsveggurinn græni reis hafi fuglarnir verið meira og minna sofandi og virðast þeir halda að það sé viðvarandi kvöld eða nótt. „Fuglarnir mínir eru bara orðnir þunglyndir,“ sagði maðurinn.
Páll segir við Morgunblaðið að bygging vöruhússins geti haft áhrif á heilsu fólks.
„Ég vil fyrst nefna ljósvistina í íbúðunum. Þessar íbúðir snúa í norður og það er umhugsunarefni út af fyrir sig hvers vegna skipulagsyfirvöld heimila slíkt. Svo getum við spáð í útsýnið og það hvað fólk hefur fyrir utan gluggana hjá sér. Ef fólk er svipt því hefur það neikvæð áhrif á velferð, heilsu og líðan fólks,“ segir hann við Morgunblaðið.