Sjá einnig: Ólafur fengið nóg og yfirgefur Ísland: „Farið út, var sagt við mig, þið fáið enga hjálp hér“
Lýsti Ólafur því meðal annars í grein í Morgunblaðinu að sonur hans væri algjör bindindismaður en gæti fengið reiðiköst sem brjótast út í ljótum munnsöfnuði. Hann hafi ekki beitt ofbeldi og varla varið sig þegar hann hefur verið beittur líkamlegu ofbeldi.
„Gefinn fjöldinn allur af lyfjum sem gerðu hann mjög ruglaðan og bættu ekki neitt, hent á milli húsa, tekinn af lögreglu og handjárnaður fyrir aftan bak, settur í fangelsisklefa, nágranni hefur ráðist á hann þannig að sá á bakinu á honum. Enginn hefur viljað neitt með hann hafa, enginn talað við hann eins og mann. Þannig hefur íslenskt þjóðfélag farið með hann og hann er bara á einhverfurófi! Ekki er nú vandinn stór,“ sagði hann í grein sinni.
Hann fylgir grein sinni frá því í nóvember eftir með annarri grein sem birtist á síðum Morgunblaðsins í dag þar sem hann segir að margir aðstandendur fólks með einhverfu fái litla sem enga þjónustu. Beinir hann einkum sjónum sínum að fullorðnum einstaklingum með einhverfu.
„Hér á landi eru sagðir sjö þúsund fullorðnir á einhverfurófi. Í kringum þessa 7.000 eru fjölskyldur sem þurfa að takast á við vanda þessara aðila. Vandinn er helstur sá að þeir eru sniðgengnir af samfélaginu, eru óhreinu börnin sem enginn vill sjá. Flestir sem vinna í heilbrigðisþjónustu eða félagsþjónustu hafa litla þekkingu á einhverfu. Ferlar eru illa skipulagðir, greiningar illa unnar, enda er flækjustigið mikið. Sagt er að hafir þú hitt einn einhverfan, hafir þú hitt einn einhverfan. Þeir eru eins misjafnir og þeir eru margir. Sumir geta lifað eðlilegu lífi, aðrir þurfa mikla þjónustu. Dettir þú yfir mörkin og náir að verða fullorðinn áður en þú færð greiningu, reynist þú þurfa þjónustu frá samfélaginu ertu í miklum vanda, engar lausnir eru í boði. Ekki er gert ráð fyrir að fólk eldist án þess að einhverfan uppgötvist. Þetta er hinn stóri vandi fullorðinna einhverfra.“
Ólafur bendir til dæmis á það að í flestum tilfellum skorti þessa aðila húsnæði þar sem þeir geta búið, enda þurfi þeir oft stuðning til sjálfstæðrar búsetu. Hann nefnir að nýlega hafi hann fengið að vita að ekki væri til húsnæði við hæfi fyrir aðila sem tengist honum. Enginn vissi hvenær það losnaði eða líkurnar á að hægt væri að fá það úthlutað.
„Eftir að ég kannaði málið fékk ég að heyra að aðili sem bjó í slíku húsnæði hafi þurft að bíða í 10 ár eftir úthlutun. 10 ár? Á þeim tíma er mjög líklegt að sá einhverfi hafi framið sjálfsmorð, enda eru einhverfir meira en helmingi líklegri til að fremja sjálfsmorð en aðrir. Þá er vandinn leystur, sá einhverfi fallinn frá og samfélagið laust við vandann,“ segir hann og spyr:
„Er þetta með vilja gert, kæru sveitarstjórnarmenn eða alþingismenn á hinu háa Alþingi? Er þetta kalt reikningsdæmi, að setja ekki nægilega mikla peninga í athvarf fyrir þá einhverfu og þá eru mestar líkur á að vandinn leysist af sjálfu sér?“
Ólafur segir að lokum í grein sinni að þeir sem þurfa að hugsa um einhverfa án aðstoðar frá samfélaginu geti í mörgum tilfellum ekki unnið út af þeirri miklu vinnu sem fylgir þessari þjónustu. „Við getum ekki farið út um helgar að skemmta okkur, ekki farið í frí, við erum með símann í hendinni allan sólarhringinn vegna þess að við vitum aldrei hvenær kallið kemur. Eftir nokkur ár af þessu álagi erum við oft orðin veik bæði líkamlega og á geði. Þá þurfum við að fá þjónustu frá samfélaginu sem kostar oftast nokkra skildinga. Vandi sem ekki er leystur vindur upp á sig og að lokum er reikningurinn orðinn ansi hár.”
Ólafur segir að svona sé þetta búið að vera í áratugi.
„Og svo eru menn hissa á að vandinn sé orðinn svo alvarlegur á öllum stöðum, bæði varðandi félagsþjónustu og geðheilbrigðisþjónustu að við tölum ekki um almenna heilbrigðisþjónustu. Mér þætti vænt um að hitta þá aðila sem bera ábyrgð á þessu og fá skýringar. Ég kalla eftir að þeir aðilar gefi sig fram og hitti mig í kaffi til að ræða málin.“