Nína fæddist 28. Júní 1946 og gekk í Gaggó Vest þar sem Jóhann Briem kenndi myndlist og hafði mikil áhrif á hana, að því er fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.
Eftir að hafa farið í Hjúkrunarskóla Íslands hélt hún til Parísar og lærði myndlist í Beux-Arts eftir að hafa lagt stund á frönskunám í eitt ár. Vann hún fyrir sér með fram náminu sem einkahjúkrunarkona hjá ríkum barónessum. Eftir að hafa útskrifast úr málaradeild 1976 fór hún í framhaldsnám í vefnaði og skúlptúr.
Nína átti viðburðaríka ævi og bjó meðal annars í Kamerún, Saír og Níger þar sem hún kynntist hirðingjaþjóðflokknum Tuareg og lærði að vinna myndir í leður.
Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að Nína hafi haldið sína fyrstu einkasýningu á Kjarvalsstöðum árið 1980 og hélt hún á ferli sínum yfir 30 einkasýningar og vann til fjölmargra verðlauna fyrir verk sín.
Nína lætur eftir sig þrjú börn og fjögur barnabörn sem öll eru búsett í Bordeaux í Frakklandi.