Eignarhaldsfélaginu Genesis Mining Iceland hefur verið slitið. Genesis Mining rak eitt sinn eina af stærstu rafmyntanámum heims í gagnaveri á Fitjum í Reykjanesbæ.
Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag. Þar kemur fram að lokareikningar félagsins sem og frumvarp til úthlutunargerðar í félaginu hafi verið samþykkt með bókun hluthafa þann 1. desember síðastliðinn. Ein krafa hafi borist til skilanefndar vegna slita félagsins, það er frá Skattinum vegna greiðslu tryggingargjalds, staðgreiðslu og þing- og sveitarsjóðsgjalda. Sú krafa var greidd.
Genesis Mining er með höfuðstöðvar í Hong Kong og hóf rafmyntagröft á Íslandi árið 2014, í gagnaveri Advania á Fitjum. Aðallega var grafið eftir rafmyntinni bitcoin en einnig etherum. Árið 2018 var opnuð náma í Svíþjóð.
Rafmyntafyrirtækin hafa verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum á undanförnum árum, enda orkufrekur og umdeildur iðnaður.
Í frétt Local Suðurnes frá árinu 2017 var meðal annars greint frá því að Genesis Mining væri stærsta etherum rafmyntanáma heims og væri einnig leiðandi í greftri eftir bitcoin. Fyrirtækið keypti orku fyrir 123 milljónir króna á mánuði.