fbpx
Mánudagur 16.desember 2024
Fréttir

Þingmaður segir að bandarísk yfirvöld viti nákvæmlega hvað er í gangi en þori ekki að segja almenningi frá því

Ritstjórn DV
Mánudaginn 16. desember 2024 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Jon Bramnick segir að þarlend yfirvöld viti nákvæmlega hvaðan dularfullir drónar koma sem herjað hafa meðal annars á austurströnd Bandaríkjanna að undanförnu. Yfirvöld þori einhverra hluta vegna ekki að segja almenningi frá því.

Að undanförnu hafa verið fluttar fréttir af hinum dularfullu drónum og kom fram í frétt DV síðastliðinn fimmtudag að íbúar í New Jersey væru til dæmis farnir að ókyrrast. Bramnick er einmitt öldungadeildarþingmaður á ríkisþingi New Jersey og hann krefst þess að bandarísk yfirvöld upplýsi almenning um hvað er í gangi.

Fjölmargar tilkynningar

Tilkynningar um drónana fóru að berast um miðjan nóvember og hafa þeir meðal annars sést í grennd við verksmiðjur Bandaríkjahers á austurströndinni. Tilkynningar hafa svo borist víðar að síðustu daga. Sjónarvottar hafa sagt að ekki sé um neina venjulega smádróna að ræða heldur séu þeir risastórir, á stærð við fólksbíla, og háþróaðir.

Hvaðan koma þeir? 

Sjá einnig: Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna

Hefur bandaríska alríkislögreglan (FBI) biðlað til almennings um að senda inn allar myndir og myndskeið af drónunum.

Leitað að skýringum

Ýmsum getgátum hefur verið varpað fram um málið, allt frá því að um fljúgandi furðuhluti sé að ræða til háþróaðra eftirlitsdróna frá erlendum óvinaríkjum. En rökréttasta skýringin er kannski sú að drónarnir komi frá bandaríska hernum og hann sé að gera einhvers konar tilraunir með þá.

„Það er ljóst að yfirvöld vilja ekki að við vitum hvað er í gangi,“ sagði Bramnick í viðtali við NewsNation um helgina og hvatti bandaríska varnarmálaráðuneytið til að tjá sig um málið.

„Það hlýtur eitthvað að vera í gangi sem þau geta ekki sagt okkur og þau virðast vera hrædd um hvað almenningur gerir ef hann fær að vita hvaða tilgangi þessir drónar þjóna,“ segir Bramnick en yfirlýsing hans var ekki beint til þess að þagga niður í samsæriskenningasmiðum.

John Kirby, talsmaður bandarískra þjóðaröryggisráðsins, hefur látið hafa eftir sér að almenningi stafi engin ógn af drónunum. Þá hefur Alejandro Mayorkas, yfirmaður heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna, sagt að yfirvöld hafi engar upplýsingar um aðkomu erlendra ríkja að drónunum.

Joe Rogan áhyggjufullur

Þingmenn og aðrir eru þeirrar skoðunar að bandarísk yfirvöld verði að varpa skýrara ljósi á málið, að öðrum kosti megi líta svo á að eitthvað sé verið að fela. Segir Bramnick að þetta þýði bara það eitt að yfirvöld hafa meiri áhyggjur af því sem kann að gerast ef almenningur fær upplýsingar en því sem kann að gerast ef honum er haldið fjarri sannleikanum. Hagsmunir þess að þegja álitnir veigameiri en að segja áhyggjufullum almenningi sannleikann.

„Það er ekki möguleiki á að varnarmálaráðuneytið viti ekki hvað er í gangi,“ segir Bramnick.

Drónarnir hafa sést víða að undanförnu.

Um fátt er meira rætt í Bandaríkjunum þessa dagana um fyrrnefnda dróna og segist hlaðvarpskóngurinn Joe Rogan til dæmis vera mjög áhyggjufullur. Rogan heldur úti vinsælasta hlaðvarpsþætti heims og hann opinberaði áhyggjur sínar eftir að John Ferguson, framkvæmdastjóri Saxon Unmanned, varpaði fram kenningu um drónana um helgina.

Ferguson hefur talsverða þekkingu á ómönnuðum flugförum enda sérhæfir fyrirtæki hans sig í framleiðslu á þeim. Sagði hann í TikTok-myndbandi um helgina, sem vakið hefur talsverða athygli, að líkur séu á að drónarnir séu hugsanlega að leita að gasleka eða jafnvel geislavirkum efnum á jörðu niðri. Segir hann að eina rökrétta ástæðan fyrir því að fljúga ómönnuðu flugfari í skjóli nætur sé sú að verið sé að leita að einhverju.

Ferguson bætti við að aðeins væri um hreina ágiskun að ræða en benti á að hann hefði talsverða þekkingu úr þessum bransa. „Ef þið haldið að þetta sé kjaftæði er það í góðu lagi. Ég vil ekki dreifa falsupplýsingum,“ sagði hann.

Joe Rogan deildi myndbandi Ferguson og sagði: „Þetta er fyrsta myndbandið sem ég sé um þessa dróna sem veldur mér raunverulegum áhyggjum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Orri taldi 27 lundabúðir á Laugaveginum – Ríkið þurfi að innheimta meiri gjöld af ferðaþjónustunni

Orri taldi 27 lundabúðir á Laugaveginum – Ríkið þurfi að innheimta meiri gjöld af ferðaþjónustunni
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum
Sagt upp á jólunum
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Skiptar skoðanir á Bíladögum á Akureyri – Karlar mun jákvæðari en konur

Skiptar skoðanir á Bíladögum á Akureyri – Karlar mun jákvæðari en konur
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Fékk vægan dóm fyrir að misþyrma leigubílstjóra

Fékk vægan dóm fyrir að misþyrma leigubílstjóra
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Snorri segir ýmislegt benda til þess að samstarfið geti súrnað hratt

Snorri segir ýmislegt benda til þess að samstarfið geti súrnað hratt
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

„Nú virðast formennirnir vera að setja upp leikrit“

„Nú virðast formennirnir vera að setja upp leikrit“