Snorri er gestur í nýjasta þætti Dagmála á mbl.is ásamt Dagbjörtu Hákonardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, þar sem þau fara meðal annars yfir stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðum.
„Með hverjum deginum sem líður þá finnst manni staðan vera orðin snúnari fyrir þá sem maður hefði haldið að gæti á einhverjum tímapunkti látið sér detta það í hug að bakka út úr þessu, það verður ólíklegra með hverjum deginum sem líður, sannarlega. Við í því tilviki búum okkur þá undir að vera í stjórnarandstöðu og að halda þá áfram á lofti þeim mjög mikilvægu baráttumálum sem við vorum með á blaði í kosningabaráttunni.“
Snorri segir að varðandi vilja þjóðarinnar – og hvernig hann er túlkaður eftir kosningar líkt og þær sem fram fóru þann 30. nóvember síðastliðinn – sé hægt að segja að það sé líka vilji þjóðarinnar að samstarf takist með Miðflokknum og Sjálfstæðisflokki.
„Og við höfum flaggað því allan þennan tíma að það er sannarlega enn þá áhugi fyrir því, mikill hjá okkur að fara þá leið,“ sagði Snorri sem sagði þó að ekki væri hægt að gera athugasemdir við það ef samstarf Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins verður að veruleika.
„Þótt að þetta líti ágætlega út núna hjá þeim – og þau geti náð einhverju samkomulagi – þá finnst mér eins og ég horfi á þetta ýmislegt benda til þess að þetta gæti alveg súrnað með tímanum og jafnvel hratt,“ segir Snorri og bætir við flokkarnir standi frammi fyrir ýmsum áskorunum.
„Ég veit ekkert hvernig það mun ganga, það getur enginn spáð fyrir um það en maður getur ekki gefið sér að það verði jafn ljúft og þægilegt og einhverjar viðræður kunna að ganga. Þetta er ekkert einfalt alltaf.“