Háskólanemi og íbúi í Reykjavík taldi 27 lundabúðir, 24 gististaði og 73 verslanir markaðssettar ferðamönnum á göngu sinni niður Laugaveg, frá Snorrabraut að Lækjargötu. Hann telur að grípa þurfti til aðgerða til að vernda borgarmenningu Reykjavíkur.
„Ég gafst upp á að telja fjölda ferðamanna, en auðvelt var að telja Íslendinga sem ég mætti – þeir voru aðeins fjórir,“ segir neminn Orri Starrason í grein í Vísi í dag. „Það ætti ekki að koma að óvart, enda eru 70% íbúða götunnar skráðar á Airbnb.“
Orri segir þessa þróun vera áhyggjuefni. Algengt sé að aðalgötur stórborga séu undirlagðar túrisma en smæð Reykjavíkur geri áhrifin alvarlegri. Fólk í til dæmis Kaupmannahöfn og Barcelona hafi önnur tækifæri en slíkar götur til að upplifa borgarmenningu. Reykjavík hafi aðeins Laugaveginn, Hverfisgötuna og hliðargötur þeirra.
„Það þarf því ekki mikið til svo allur miðbærinn sé undirlagður túrisma,“ segir Orri. „Mér sýnist að það hafi þegar gerst. Íbúðin á Frakkastíg sem amma bjó einu sinni í hýsir nú átta manna Euro-rail hóp og í Hjartagarðinum þar sem ég lærði að gera ollie er risið lúxushótel sem selur lavasalt og lundapúða. No skateboarding allowed!“
Segir hann að Íslendingar geti nær gleymt því að búa í miðborg höfuðborgar sinnar. Eina erindið sem þeir geta vænst að eiga þar sé að kaupa sér ullarpeysu. Hátt leiguverð ýti hönnuðum og listamönnum í burtu því aðeins eigendur lundabúða og veitingastaða hafi efni á leigunni.
„Ferðaþjónustan hefur þannig þrýst heimamönnum út úr miðbænum sem þeir hafa sjálfir mótað og komið í veg fyrir að þeir fái að njóta hans. Það er alvarleg staða,“ segir Orri. „Miðbærinn á að vera eftirsóknarverður staður fyrir heimamenn þar sem þeir upplifa eigin borgarmenningu og sækja verslanir og þjónustu sem höfða til þeirra og þeir hafa efni á. Óheftur túrismi í miðbænum kemur í veg fyrir þau lífsgæði. Til að halda í unga fólkið okkar verðum við að geta keppt við aðrar borgir hvað þetta varðar.“
Að mati Orra þarf ríkið að innheimta frekari gjöld af ferðaþjónustunni til þess að vernda borgarmenningu Reykjavíkur. Peninginn ætti að nýta til þess að efla menningu í miðbænum.
Einnig þurfi að dreifa ferðamannastraumnum víðar um landið, svo sem með betri samöngum á landsbyggðinni og fjárhagslegum hvötum til fyrirtækja utan Reykjavíkur. Þá þurfi að þrengja verulega Airbnb reglur í miðbænum.
„Ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein. Þess vegna þarf hún skýran ramma stjórnvalda svo hún geti vaxið í sátt við innlenda menningu og heimamenn,“ segir Orri að lokum. „Rétt eins og útgerðin fær ekki að klára fiskinn í sjónum ætti ferðaþjónustan ekki að fá að leggja undir sig miðbæ Reykjavíkur.“