Maður á þrítugsaldri var þriðjudaginn 10. desember sakfelldur fyrir líkamsárás á leigubílstjóra. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ákært var vegna atviks sem átti sér stað seint í janúar ár4ið 2023, inni í leigubíl við gatnamót Hofsvallagötu og Sólvallagötu, í Vesturbæ Reykjavíkur. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ítrekað slegið leigubílstjórann í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut bólgu og mar í kringum hægra auga, mar í hársverði, eymsli í vinstra viðbeini og tárublæðingu í hægra auga.
Hinn ákærði neitaði sök og bar við neyðarvörn, sagði hann að leigubílstjórinn hefði ráðist á sig og hefði hann brugðist við í sjálfsvörn.
Leigubílstjórinn, sem hringdi í lögreglu eftir árásina, greindi frá því að hann hefði tekið tvo menn upp í bíl sinn í miðborginni og ekið þeim í Vesturbæinn. Þeir tveir hefðu farið að rífast heiftarlega og þegar leigubílstjórinn reyndi að stilla til friðar réðst ákærði á hann með fyrrgreindum hætti.
Hinn farþeginn gat ekki gefið gagnlegan vitnisburð í málinu þar sem hann bar fyrir sig minnisleysi, en farþegarnir tveir voru mjög drukknir.
Dómarinn lagði ekki trúnað á vitnisburð ákærða, varðandi sjálfsvörn, og sakfelldi hann fyrir líkamsárás. Hins vegar fékk hann mjög vægan dóm og var það metið til refsimildunar að tafir urðu á meðferð málsins fyrir útgáfu ákæru.
Niðurstaðan var 45 daga skilorðsbundið fangelsi. Ákærði var hins vegar dæmdur til að greiða leigubílstjóranum 350 þúsund krónur í miskabætur. Einnig þarf hann að greiða rúmlega 833 krónur í sakarkostnað.