Í dag (16. desember) var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem Héraðssaksóknari hefur höfðað gegn manni fyrir nauðgun og stórfellt brot í nánu sambandi.
Maðurinn er sakaður um að hafa föstudagskvöldið 26. nóvember árið 2021, á þáverandi heimili sínu og þáverandi sambýliskonu sinnar, beitt konuna ofbeldi og ólögmætri nauðung. Hann hafi án samþykkis konunnar haft samræði eða önnur kynferðismök við hana, á sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt. Í ákæru segir „…en ákærði greip í hendur A og þrýsti henni með andlitið upp að vegg, en ákærði stóð fyrir aftan hana og hélt henni fastri, tók fætur hennar í sundur og stakk getnaðarlim sínum eða fingri í leggöng hennar, en ákærði skeytti því engu þótt A streyttist á móti og bæði hann ítrekað um að hætta, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut nokkra marbletti á báðum framhandleggjum, þar af einn um 6 sm að stærð á hægri framhandlegg og annan um 2,5 sm að þvermáli á vinstri, sár á vísifingri vinstri handar, marbletti og dreifð eymsli og bólgur á lærum, ásamt eymslum hægra megin í hálsi og í miðlínu hálshryggjar, í úlnliðum og í vinstri olnboga, en með framangreindri háttsemi sinni ógnaði ákærði á alvarlegan hátt heilsu og velferð A.“
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd brotaþola er krafist miskabóta að upphæð 5 milljónir króna.