fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Úlfúð út af grein innflytjanda um íslenskar konur – „Þetta bara hlýtur að vera tilbúningur til að æsa fólk upp“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 15. desember 2024 13:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rajan Parrikar, sem upphaflega er frá Goa í Indlandi en er nú búsettur á Íslandi, segir að íslenskar konur eigi eftir að leiða þjóðina til glötunar. Þá einkum konur sem hafi „misnotað kvenréttindabaráttuna í eigin þágu og sölsað til sín valdastöður þrátt fyrir einfeldningshátt og vanhæfni“. Þetta kemur fram í aðsendri grein Rajan hjá Nútímanum sem hefur vakið nokkuð umtal.

„Íslenskt kvenfólk hefur dálæti á því að slá sig til jafnréttisriddara, að auglýsa sig sem fyrirmyndir um valdeflingu kvenna og kvenréttindi — sjálfshól sem er jafnþreytandi og það er innantómt.

Undir yfirborðinu er tilefnið ekki túskildings virði. Margmærðar (ó)dáðir standast ekki skoðun.“

Frelsi fyrir gjálífi og lauslæti

Rajan tekur fram að margar íslenskar konur séu hæfileikaríkar og hafi unnið sönn afrek. En þessar konur falli í skugga kvenna sem fer meira fyrir – kvenna sem tilheyra „woke-vinstrinu og stétt aðgerðarsinna“. Rajan telur að íslenskar konur hafi með baráttu sinni fengið takmarkalaust frelsi sem þær nýta helst til að taka inn fíkniefni og stunda kynlíf.

„Það verður að segjast að frelsi er u.þ.b. eina sviðið þar sem íslenskar konur hafa náð stórfelldum framförum. Þær njóta svo sannarlega takmarkalauss frelsis; til að drekka og dópa, reykja úr sér lungun, stunda almennt gjálífi og lauslæti og gelta fokk eins og um hetjudáð væri að ræða. Ekki má gleyma stríðsöskrinu: Fokk feðraveldið!

Í stuttu máli: Frelsisbaráttan sýður yfir. Frelsið til að vera drusla er hápunktur íslensks nútímafemínisma, það er þrekvirkið. En það er fátt um fína drætti þegar kemur að raunverulegum afrekum, framúrskarandi þekkingu og forystu í málum er varða velferð þjóðarinnar.“

Rajan rekur að hefðbundin kynjahlutverk séu enn við lýði í Indlandi en engu að síður hafi margar konur náð að blómstra í atvinnulífi og komist á toppinn. Hér á Íslandi hafi kvenréttindabaráttan þó verið öðruvísi og helst sjálfhverfur áróður sem hafi landað konum eins og Katrínu Jakobsdóttur í valdastöðu.

Rajan rekur ekki nákvæmlega hvernig Katrín átti ekki að vera að því komin að komast til valda en heldur því fram að Katrín og aðrar konur henni líkar hafi valdið samfélaginu skaða.

„Hún og hennar líkar hafa lagt grunninn að andrúmslofti lamandi meðalmennsku og öfundar sem hefur leitt til slakari menntunar, kynvæðingar grunnskólabarna, þráhyggju gagnvart öllu sem tengist kynhneigð og kynvitund, stjórnlausa flóttamanna- og hæliskreppu ásamt straumi innflytjenda frá löndum íslams sem stofnar menningu og arfleifð Íslendinga í stórhættu.“

Sjálfstæðisflokkurinn ekkert skárri

Rajan rekur að íslam sé ósamrýmanlegt íslenskri menningu og ljóst að þessir ólíku menningarheimar geti ekki blómstrað hlið við hlið.

Síðan víkur hann máli sínu að hjónabandi. Það skorti umræðu, að hans mati, um kosti hjónabands hér á landi, svo sem hvað varðar efnahag hjóna, sem sé vænni en þeirra sem búa einir.

Þó að Rajan segi það ekki berum orðum virðist hann ósáttur við skort á íhaldi í íslensku þjóðfélagi og er hann ekki ánægður með Sjálfstæðisflokkinn þar sem Sjálfstæðiskonur eru gjarnan femínistar. Hann auglýsir því eftir íhaldssömum konum, því án þeirra sé Íslandi óbjargandi.

„Jafnvel innan Sjálfstæðisflokksins, hins meinta vígis íhaldsins, er hugmyndafræðilega rotnunin vel á veg komin. Framákonur flokksins eru persónugervingar meðalmennsku nútíma femínisma og breiða yfir vanhæfi sitt með innantómum frösum eins og „valdeflingu kvenna“.

Þegar flónska þeirra er gagnrýnd grípa þær til útjaskaðra aðferða: Að beita kynferði sínu sem skildi og sverði og fordæma gagnrýni sem kvenfyrirlitningu.

Ef hinn þögli meirihluti góðra, heilsteyptra, greindra og skynsamra íslenskra kvenna stígur ekki fram og lætur í sér heyra verður Íslandi óhjákvæmilega stefnt áfram til glötunar.“

Af grein Rajans, sem veður svolítið úr einu í annað, má helst ráða að hann sé ósáttur við frjálslyndar íslenskar konur sem kenna sig við femínisma. Hann er ósáttur við kynfrelsi þeirra og hversu óbundnar þær eru af gömlum hugmyndum um hlutverk kynjanna. Telur Rajan að þetta sé ekki góð þróun þar sem konur geti enn verið íhaldssamar og samt náð árangri í lífinu, eins og megi sjá á Indlandi. Hann ber Ísland þó ekki saman við Indland þegar hann gagnrýnir baráttu femínista fyrir hælisleitendum sem eru múslímar, en í Indlandi eru um 14% íbúa múslímar, eða um 200 milljónir.

Hlýtur að vera tilbúningur

Grein Rajan hefur vakið athygli og hafa margir furðað sig á því að Nútíminn hafi birt grein af þessu tagi.

„Þetta bara hlýtur að vera tilbúningur til að æsa fólk upp. Trúi ekki öðru,“ skrifar ein hjá Baráttuhópi gegn ofbeldismenningu á Facebook. Aðrir benda á að greinin sé nokkuð sundurleit og óljóst hvað Rajan sé nákvæmlega að gagnrýna og hvaða breytingar hann vilji sjá. „Ansi mörg orð í grein sem segir samt einhvernveginn ekki neitt.“

Sumir benda á að greinin hljóti að vera skrifuð af einhverjum öðrum en Rajan. Bæði sé íslenskan frekar fáguð og svo sé undarlegt að Rajan hafi ekki birt greinina á sinni persónulegu heimasíðu. Eins sé efni greinarinnar til þess fallið að vekja reiði, ýta undir fordóma og auka skautun.

Umræðan um greinina er jákvæðari hjá Stjórnmálaspjallinu. Þar segja margir að glöggt sé gests augað. „Fólk fer að opna augun, maður sér fleiri og fleiri farna að sjá í gegn um leikritið,“ skrifar einn. Aðrir taka fram að það sé sorglegt að verða sjá konur taka þátt í druslugöngunni og að femínistar séu frekjur með yfirgang.

Hópurinn Afhúpum kvenfyrirlitningu, rasisma og almennt hatur á samfélagsmiðlum ræðir líka um greinina. Þar er bent á að Rajan minnist í engu á þau hrottalegu ofbeldismál sem koma reglulega upp á Indlandi þar sem konum og börnum er nauðgað og þau myrt með ógeðfelldum hætti. Einnig er bent á að orðið woke sé í dag notað til að þagga niður umræðu um jafnrétti og félagslegt réttlæti. Minnt er á að tjáningarfrelsi þýðir ekki að fólk sé stikkfrítt frá afleiðingum tjáningar sinnar.

Nútíminn deildi greininni á Facebook-síðu sinni með þeim skilaboðum að hér sé á ferðinni grein sem aðrir miðlar hafi ekki þorað að birta. Þar í athugasemdum eru skoðanir skiptar. Sumar konur benda Rajan á að hann geti nú bara farið aftur heim til Indlands ef honum mislíkar jafnréttið á Íslandi. Aðrir benda á að greinin sé heilt yfir grunsamleg og stafi líklega ekki frá Rajan sjálfum.

Rétt er að geta þess að Rajan er með heimasíðu og hefur áður skrifað greinar sem hafa birst hjá íslenskum fjölmiðlum. Þar með talið hjá Morgunblaðinu og hjá Heimildinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Dóru Björt brugðið yfir vöruhúsinu í Álfabakka – Viðstödd borgarráðsfund þar sem byggingarmagnið var samþykkt

Dóru Björt brugðið yfir vöruhúsinu í Álfabakka – Viðstödd borgarráðsfund þar sem byggingarmagnið var samþykkt
Fréttir
Í gær

Valkyrjurnar halda ótrauðar áfram

Valkyrjurnar halda ótrauðar áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Zelenskyy segir að 43.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu

Zelenskyy segir að 43.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu