fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Ósammála um hver beri ábyrgð á ferlíkinu í Breiðholti – „Þessi hryllilegi járnveggur beint fyrir utan stofugluggann hjá fólki“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 15. desember 2024 15:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið fjaðrafok varð í vikunni þegar íbúar við Álfabakkann í Breiðholti vöktu athygli á  skipulagsslysi. Stórt vöruhús er í byggingu við Álfabakka 2 sem er svo nálægt íbúablokka við Árskóga að það skerðir verulega útsýni. Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, og Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks mættu í Sprengisand í dag til að ræða málið.

Algjör hryllingur

Hildur segir:

„Mér finnst þetta auðvitað algjör hryllingur og ég finn mikið til með þeim íbúum sem vakna upp við þá martröð að við stofugluggann þeirra blasir við þeim þessi kaldranalegi járnveggur.

Við fyrstu sýn virðist þetta tyrfið mál sem á sér langa sögu en raunin er að mikilvægasta ákvörðunin í málinu hún er ekki svo gömul. Hún er tekin í rauninni sumarið 2023 þegar borgarráð formlega úthlutar þessari lóð og selur byggingarheimildir á lóðinni. Þá lóðaúthlutun samþykktum við Sjálfstæðismenn ekki, svo ég taki það fram, en þegar þessari lóð er úthlutað er okkur samt sem áður sagt að þetta sé verslunar- og þjónustulóð og þarna eigi að rísa höfuðstöðvar eða starfsstöðvar tveggja rótgróinna fyrirtækja.

Síðan kemur eitthvað allt annað á daginn og við sjáum að þarna rís þetta vöruhús þar sem verða væntanlega vöruflutningar allan sólarhringinn. Þessi hryllilegi járnveggur beint fyrir utan stofugluggann hjá fólki og maður veltir því hreinlega fyrir sér hvernig það gat gerst að hús af þessu tagi, svona útlits, fékk að rísa inni í íbúðahverfi og inni á þessu svæði.“

Hildur benti á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi árið 2020 kallað eftir heildarendurskoðun á svæðinu í kringum Mjóddina, enda mörg tækifæri þar til að auðga hverfið og Mjóddina sem þungamiðju Breiðholtsins. Þessi tillaga var samþykkt, sem er óvenjulegt fyrir tillögu sem kemur frá minnihlutanum. Engu að síður fór sem fór. „Þess vegna er svo merkilegt hvernig í ósköpunum þetta gat gerst. Var bara enginn að fylgjast með? Maður veltir fyrir sér, var bara enginn heima þarna í ráðhúsinu?“

Sárnar fyrir hönd íbúa

Dóra Björg tók fram að málið eigi sér vissulega langan aðdraganda. Um fimmtán ár séu síðan það var ákveðið að á svæðinu myndi rísa stórt atvinnuhús. Hversu stutt er á milli vöruskemmunnar og íbúahúsa eigi sér svo rætur að rekja til ársins 2015 þegar aðilarnir sem stóðu að uppbyggingu íbúðanna óskuðu eftir að fá að byggja nær lóðarmörkum en áður stóð til. Með öðrum orðum þá var þetta meytlað í stein áður en Dóra tók sæti í borgarstjórn.

„Mér þykir vænt um Breiðholtið. Mér sárnar þetta fyrir hönd íbúa og mig langar að bæta úr og gera það sem í mínu valdi stendur til að bæta ferla, verkferla og bara horfast í augu við að þarna fóru mál ekki eins og best var á kosið og það er bara ekki í boði, finnst mér, og þess vegna er ég nú hér.“

Skiptar skoðanir á kvöðum

Hildur rakti að Dóra hafi áður sagt um máli að herða þurfi reglur í tengslum við uppbyggingu. Hildur er því ósammála enda regluverkið nú þegar þungt.

„Ég gæti nefnt veitingamenn sem hafa þurft að bíða í marga mánuði eftir að opna sína veitingastaði vegna þess að það þarf að hafa 14 vaska og 3 ræstikompur og lyktarlausa sápu, svo ég nefni bara raunverulegt dæmi.“

Það sé eitt að hafa óþarfa afskipti af málefnum íbúa sem hafi ekkert að gera með heildarhagsmuni borgarinnar. Til dæmis þegar borgin gerði íbúa í Vogabyggð skylt að vera með berjarunna í garði sínum og meinaði honum að stækka sólpallinn sinn. Annað mál sé þegar um heildarhagsmuni hverfa sé að ræða eins í Álfabakkanum. Stóra spurningin sé hvað atvinnuhúsnæði af þessari stærð sé eiginlega að gera á þessum stað. Líklegasta svarið sé að út af þéttingarstefnu borgarinnar, þar sem svæðum sem áður voru ætluð atvinnurekstri hefur verið breytt í blandaða byggð eða hreina íbúðabyggð, þá þurfi að finna atvinnustarfsemi nýjan stað. Nú séu fyrirtæki að flýja í önnur sveitarfélög þar sem þéttingarstefnan hafi gert þeim ókleift að starfa í borginni.

Dóra er ekki sammála. Hún telur að Álfabakkinn sýni þvert á móti að borgin þurfi að setja auknar kvaðir á uppbyggingu, sérstaklega hvað varðar útlit og ásýnd bygginga. Sjálf hefur Dóra ekki búist við þessu ferlíki sem hefur risið í Álfabakka. Hún hafði heyrt að þarna ættu að vera höfuðstöðvar stórfyrirtækis og það fannst henni spennandi fyrir Breiðholt.

Samtal er nú hafið við uppbyggingaraðila um hvernig megi bæta stöðuna. Til dæmis átti að koma viðarklæðning og gróður við járnvegginn sem gæti nú bætt ásýndina eitthvað en að mati Dóru dugar það ekki til. Samtal er því hafið um hvernig megi fegra þetta. Svo sem með því að bæta við gluggum, jafnvel lækka bygginguna, allt svo byggingin flæði betur inn í hverfið.

Dóra taldi framan af að þarna yrði um skrifstofuhúsnæði að ræða og tók fram að það sé ekki svo að allar teikningar liggi fyrir þegar byggingarheimildir eru veittar.

Fólk á að geta horft út og séð annað en grænan járnvegg

Hildur var ósammála og tók fram að mörg dæmi væru þess að teikningar séu lagðar fram við kjörna fulltrúa, einkum þegar skoða þarf skuggavarp og annað.

„Þannig það var mjög sérkennilegt í þessu máli að við sáum aldrei hvernig húsið myndi líta út. Við í minnihlutanum höfðum engan aðgang að slíkum gögnum. Annað sem er mjög sérkennilegt, og Morgunblaðið hefur einmitt fjallað um, eru samskipti íbúa í nærliggjandi byggð við borgina vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar. Það gerðist strax fyrir 2 árum síðan að íbúar hafa samband við skipulagsfulltrúa og lýsa áhyggjum af því að fyrirhuguð uppbygging muni hafa áhrif á útsýni frá íbúðum þeirra og birtuskilyrði“

Íbúar voru fullvissaðir um að áhrifin yrðu engin.

„Það skilur hver eðlilega skynsamur maður að hver einstaklingur á að geta vaknað á heimili sínu á morgnanna, sest inn í eldhús, fengið sér kaffi og litið út um gluggann til að sjá eitthvað annað en stærðarinnar grænan járnvegg.“

Einkaframtakinu ekki treystandi

Hildur segir alveg ljóst að borgarstjórn og Dóra Björt sem formaður umhverfis- og skipulagsráðs beri ábyrgð í þessu máli. Uppbyggingaraðili hafi allan tímann unnið innan þeirra leyfa og heimilda sem borgin veitti honum. Hann gerði ekkert rangt.

Dóra segir að þetta sé til komið þar sem um of víðar uppbyggingaheimildir var um að ræða í málinu.

„Þetta er dæmi þar sem það er svigrúm til túlkunar. Þú getur túlkað það í frábæra átt, með frábærri hönnun, miklum metnaði fyrir umhverfi þínu. Eða þú getur túlkað þetta í allt aðra átt þar sem þú sýnir ákveðið skeytingarleysi gagnvart Breiðholtinu, eins og þetta er sannarlega dæmi um að einkaaðilar hafi gert í þessu tilfelli.“

Sjálfstæðisflokkurinn sé alltaf að tala niður kerfið og mæra einkaframtakið, hvað það leysi verkefni betur en hið opinbera.

„Þetta er dæmi um að einkaframtakinu sé ekki alltaf fyllilega treystandi fyrir of miklu svigrúmi og þá verðum við að tryggja kvaðirnar.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Dóru Björt brugðið yfir vöruhúsinu í Álfabakka – Viðstödd borgarráðsfund þar sem byggingarmagnið var samþykkt

Dóru Björt brugðið yfir vöruhúsinu í Álfabakka – Viðstödd borgarráðsfund þar sem byggingarmagnið var samþykkt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Valkyrjurnar halda ótrauðar áfram

Valkyrjurnar halda ótrauðar áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Zelenskyy segir að 43.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu

Zelenskyy segir að 43.000 úkraínskir hermenn hafi fallið í stríðinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu