Árið 2015 hófust umdeildar framkvæmdir við kastala í miðaldarstíl í Póllandi. Kastalinn er byggður á manngerðri eyju í útjaðri Notecka-skógar, sem er í klukkutíma fjarlægð frá borginni Poznan. Fyrst um sinn flaug framkvæmdin undir radarinn en nokkrum árum síðar sprakk málið út þegar ljóst var hvaða ferlíki var að rísa en kastalinn er 200 metrar að lengda og hæsti turninn um sjötíu metrar.
Mikil umræða fór í gang um að framkvæmdin væri ólögleg og hana ætti að stöðva en þrátt fyrir einstaka hlé í framkvæmdunum, meðal annars vegna málaferla og lögreglurannsóknar, hefur kastalinn smátt og smátt risið og er í dag níu árum síðar, nokkurn veginn tilbúinn.
Það sem er furðulegast í málinu er að enginn veit almennlega hver er eigandi kastalans né hver tilgangurinn með byggingunni er. Nokkrir pólskir milljarðamæringar hafa verið nefndir sem mögulegir eigendur og þá er hávær orðrómur um að verkefnið hafi verið fjármagnað með peningum úr erlendum skattaskjólum. Talsmenn hins dularfulla eiganda hafa sagt að kastalinn verði heimili viðkomandi í framtíðinni en aðrir telja fullvíst að tilgangurinn sé sá að breyta kastalanum í lúxushótel.
Eigandinn virðist að minnsta kosti ætla að hafa einhverjar tekjur af ferðaþjónustu en nýlega var kastalinn opnaður fyrir ferðamönnum sem geta skoðað hluta hans gegn gjaldi, keypt veitingar i kaffihúsi á staðnum og notið lífsins í siglingu umhverfis kastalann.