„Ég get lítið orðið að liði í þessari umræðu og ég hef ekki lesið bókina en mér finnst það mjög langsótt sem þau eru með þarna systkinin,“ segir Haukur Guðmundsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, en hann kom að rannsókn Geirfinnsmálsins í kjölfar hvarfs Geirfinns Einarssonar í Keflavík þann 19. nóvember árið 1974.
„Ég talaði við systur höfundarins, Soffíu, það er það eina sem ég veit um þetta,“ segir Haukur og vísar þar til Soffíu Sigurðardóttur sem aðstoðaði bróður sinn, Sigurð Björgvin Sigurðsson, við gerð bókarinnar „Leitin að Geirfinni“, sem kom út fyrir stuttu. Í bókinni er rannsókn Keflavíkurlögreglunnar á hvarfi Geirfinns, sem þeir Haukur Guðmundsson og Valtýr Sigurðsson önnuðust, gefin falleinkunn. Færð eru rök fyrir því að tilgáta lögreglunnar, um að hvarf Geirfinns tengist stefnumóti sem hann átti við ókunnan mann í Hafnarbúðinni í Keflavík, hafi verið alröng. Bókarhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að Geirfinnur hafi látið lífið í átökum á heimili sínu, eftir að hann kom þangað heim í fylgd kunningja síns, og fyrir á heimilinu voru eiginkona Geirfinns, Guðný, og ástmaður hennar, Svanberg Helgason.
Í bókinni er greint frá vitnisburði 10 ára drengs sem var að leika sér með vasaljós þarna um kvöldið og segist hafa orðið vitni að átökum Geirfinns og annars manns inn um glugga bílskúrs.
„Nú veit ég ekki frekar en þú hvað gerðist,“ segir Haukur er blaðamaður ber þessa kenningu undir hann. En hann er ekki trúaður á hana: „Mér finnst þetta rosalega sérkennilegt og þetta rekst allt hvert á annars horn. Af hverju var bíllinn hans niðri við höfn? Það er vitað að hann kom heim og fór að heiman aftur, nú hann átti strák sem var 10 ára, og ef einhver 10 ára drengur hefur verið þarna þá er ofsalega langsótt að hann hafi verið þar nálægt.“
DV bendir á að í bókinni sé því haldið fram að börn Geirfinns og Guðnýjar hafi verið í Njarðvík þetta kvöld, sem og um nóttina, og drengurinn sem hér um ræðir segist hafa reynt að fá son Geirfinns út að leika, en honum hafi verið tjáð að hann væri í Njarðvík.
Varðandi bíl Geirfinns, sem fannst daginn eftir nálægt höfninni, þá eru færð rök fyrir því í bókinni að bílnum hafi verið komið þar fyrir eftir hvarf Geirfinns í því skyni að leiða rannsókn málsins á villigötur.
DV spurði Hauk hvort hann hafi orðið var við eitthvað sem benti til þess að Guðný eða Svanberg vissu meira um hvarf Geirfinns en þau létu í ljósi.
„Nei, það hefur aldrei flökrað að mér. Við vorum nokkuð fastir í þessari kenningu okkar vegna þess að það voru einhverjar mannaferðir þarna í Hafnarbúðinni og það má ekki gleyma því markverðasta, að þegar Geirfinnur fór út úr bílnum hjá vini sínum í fyrri ferðinni, þá sagði hann eitthvað í þá áttina að það hefði kannski verið betra að vera vopnaður þegar maður fer að hitta þessa menn.“
Í bókinni er því haldið fram að þessi ummæli séu ýkjur eða skáldskapur lögreglu og bent á að vinnufélaginn hafi síðar reynt að breyta framburði sínum og fá því gefið aukið vægi að hann hafi upplifað ummæli Geirfinns um stefnumót í Hafnarbúðinni sem fyrirslátt.
Samkvæmt þeim línum sem lögreglan lagði í málinu, og Haukur heldur sig ennþá við, þá var Sigurður, sonur Geirfinns, heima þetta kvöld og svaraði í símann er maður er sagður hafa hringt heim til Geirfinns úr Hafnarbúðinni. Geirfinnur á þá að hafa verið nýkominn heim eftir að hafa reynt árangurslaust að hitta manninn í fyrra skiptið. Sigurður, sonur Geirfinns, á að hafa svarað í símann.
„Eftir okkar kenningu var Sigurður, sonur Geirfinns heima. Sigurður er lifandi ennþá. Ég er málkunnugur honum en við erum ekki mikið í sambandi.“ – Haukur segir að lögregla hafi haft eftir syni Geirfinns að hann hafi heyrt föður sinn segja í símann: „Ég er búinn að koma, ég kem.“ – Síðan á Geirfinnur að hafa farið út og ekið á bíl sínum til fundarins.
DV hafði samband við Sigurð, son Geirfinns, og freistaði þess að fá að spyrja hann út í þennan vitnisburð. Hann hafnaði því hins vegar með öllu að tjá sig um málið.
Sigurður Björgvin, höfundur bókarinnar „Leitin að Geirfinni“, heldur því hins vegar fram að Sigurður hafi ekki gefið þennan vitnisburð fyrr en tveimur árum síðar, í rannsókn Reykjavíkurlögreglunnar á málinu. Allt bendi til að Sigurður og systir hans hafi ekki verið heima þetta kvöld enda vitna nágrannar um að Geirfinnur hafi snemma um kvöldið málað herbergi barna sinna. Á þessum tíma var notast við innanhússmálningu sem var lengi að þorna og gaf frá sér mikla lykt, og ólíklegt sé að sofið hafi verið í herberginu eftir málun.
Haukur gerir þann fyrirvara við allar fullyrðingar sínar að minni hans sé brigðult, en hann er nú áttræður að aldri. „Ég segi þér þetta eins og ég man það,“ segir hann. Hann telur að Sigurður Geirfinnsson hafi gefið ofannefndarn vitnisburð einhverjum dögum eftir hvarf föður hans, Geirfinns.
Aðspurður viðurkennir Haukur að Geirfinnsmálið trufli hann ennþá í dag. „Ég hefði viljað vita hvað þarna kom fyrir, þetta er mjög sérstakt allt saman, upphafið og endirinn.“
Hann telur öruggt að fimmmenningarnir sem voru á sínum tíma sakfelld fyrir morð á Geirfinni og síðan sýknuð séu saklaus. En hefur hann einhverja kenningu um hvað gerðist?
„Nei, ég hef passað mig á því allan tímann að búa aldrei til neitt svoleiðis.“
DV spyr hann að því hvort það geti verið að heimili Geirfinns hafi verið brotavettvangur. „Mér finnst það rosalega langsótt en auðvitað veit ég ekki hvað gerðist.“
Aðspurður um vitnisburð nágranna um að mikill hávaði hafi heyrst frá heimili Geirfinns kvöldið sem hann hvarf þá segist hann eitthvað hafa heyrt um það löngu síðar en ekki er hann var að rannsaka málið. Þó ber slíkan hávaða á góma í samantektarskýrslu um málið sem Haukur undirritaði. Rétt er að hafa í huga að langt er um liðið og Haukur segir ekki hægt að treysta að fullu á minni hans.
Haukur segir að lögreglan hafi lagst í miklar rannsóknir á lífi Geirfinns og fjármálum hans. Þeir hafi þar enga misfellu fundið, maðurinn hafi verið stálheiðarlegur.
„Við töluðum við fullt af mönnum sem unnu með honum og það var alls staðar það sama. Við létum rannsaka eignamyndun og bókhaldið, veltum við hverjum steini, og það var aldrei hrukka á neinu. Hann var bara duglegur dagvinnumaður með tvö börn og konu, að basla þetta áfram. Það var allt slétt og fellt. Það kom þarna í ljós að maður kunnugur honum hafði beðið hann um að eima sjó úr spíra. Það bendir samt ekkert til að hann hafi komið nálægt því en við náðum þessum brúsum í Hafnarfirði.“
Haukur segist telja að Geirfinnur hafi ekki verið viðriðinn spírasmygl með neinum hætti.