Eldri hjónum brá í brún fyrir skemmstu þegar þau fengu kröfubréf frá Reykjavíkurborg upp á um 7 milljónir króna. Var það vegna dagsekta vegna skjólveggs sem eigendurnir segjast hafa reist til að varna slysum og bjarga garðinum sínum.
„Konan er komin á eftirlaun og það styttist í mig. Ég ætlaði ekki að vera að standa í einhverju svona. Ég hélt að ég væri að gera borginni greiða með að girða þennan bratta,“ segir Anton Á. Kristinsson, íbúi við Gvendargeisla 76 í Grafarholti í Reykjavík, sem hefur staðið í stappi við Reykjavíkurborg vegna skjólgirðingar.
Anton og konan hans keyptu húsið árið 2009 en þá hafði verið reist skjólgirðing norðan megin lóðarmarka og fyrir hornið á gangstíg. Hár bratti er ofan af stígnum ofan í garðinn við húsið, um 2,5 metri.
Fyrir um þremur árum keyrði vinnuvél á vegum Reykjavíkurborgar á skjólvegginn og braut hornið á honum. Eftir það vildi Anton laga veginn og klára að girða við gangstíginn. Norðan kalstrengur gengur inn í garðinn og drepur runnana. En það myndi þýða að hluti borgarlandsins endaði innan girðingar, um 20 fermetrar, vegna þess að mörkin eru ekki við gangstíginn heldur í brattanum sjálfum.
„Ég var búinn að vera í samskiptum við Reykjavíkurborg en fékk alltaf loðin svör og allt tók óratíma. Á endanum kláraði ég girðinguna með fram stígnum,“ segir Anton.
Í kjölfarið fékk Anton tilkynningu um óleyfisframkvæmd og var sagt að fjarlægja allan vegginn. Líka það sem var byggt áður en hann keypti húsið.
Sendi hann fyrirspurn og bað um að fá að halda veggnum. Bað hann um viðræður um lausnir á málinu. Hefur hann meðal annars lagt til að hann fengi að leigja eða kaupa þennan bratta. Vísar hann meðal annars í mál þriggja húsa við Einimel í Vesturbænum þar sem skjólveggur stóð í borgarlandi og mikið var fjallað um í fjölmiðlum. Þar fengu íbúar að kaupa svæði innan skjólveggs á tæpar 68 þúsund krónur fermetrinn af Reykjavíkurborg. Í því tilviki voru skjólveggir hins vegar á sléttu túni. Ætla mætti því að veggur Antons hafi þjónað mun meiri tilgangi.
„Það hefur aldrei komið neinn rökstuðningur gegn neinu sem ég hef stungið upp á. Bara þvert nei,“ segir Anton. „Mín tilfinning er sú að það er verið að taka ákvarðanir eingöngu út frá teikningum. Fólk gerir sér sér ekki grein fyrir því hvernig það er verið að girða með fram.“
Þá hefur Anton einnig fundið um 100 lóðir á Landeigendaskrá Húsnæðis og mannvirkjastofnunar sem innihalda svipaðar framkvæmdir og á lóðinni hans sem Reykjavíkurborg hefur ekki amast við. Meðal annars við Ægissíðu, Álfheima, Glæsibæ, Sunnuveg, Grundargerði, Njörvasund og Faxaskjól.
Málið var tekið til umsagnar hjá Reykjavíkurborg í febrúar síðastliðnum. Það er ósk Antons um að veggurinn fengi að standa. Í umsögn skipulagsfulltrúa sagði að girðingin gæti ekki fengið að standa í núverandi mynd, hún væri á borgarlandi en ekki lóðamörkum. Einnig að hún skyggði á útsýni vegfarenda.
„Árið 2010 var send inn fyrirspurn varðandi að reisa girðingu með fram lóðarmörkum að lóð Gvendargeisla 74. Ekki var gerð athugasemd við að girðingin yrði reist svo lengi sem hún fari ekki yfir 180 cm hæð frá þeirri landhæð sem lægri er við lóðamörk. Þar var einnig tekið fram að æskilegt væri að girðingin væri að lágmarki 100 cm frá göngustíg. Girðingin sem var síðar reist liggur allt að 4 metra út fyrir lóðamörk og 190 cm á hæð og alveg upp við göngustíg,“ segir í umsögninni.
Anton segist ekki gefa mikið fyrir það að veggurinn blindi sýn. „Það er víða þar sem horn eru krappari en hér. Þetta er aflíðandi horn með radíus um 6 til 10 metra,“ segir hann.
Nefnir hann að gangstígurinn er ein helsta leiðin fyrir börn til að komast að Sæmundarskóla. Hætta sé á að þau falli ofan í garðinn, til dæmis í hálku. Í eitt skipti hafi konan hans séð barn hjóla utan í vegginn, sem þýðir að ef hann hefði ekki verið til staðar hefði barnið að öllum líkindum fallið um 2,5 metra ofan í garðinn.
Í ljósi alls sem undan er gengið gerir Anton þó ráð fyrir að rífa niður vegginn en firrir sig ábyrgð á slysum sem þetta kynni að hafa í för með sér, svo sem ef barn falli niður í garðinn.
„Ef það verður eitthvað slys þarna út af því að girðingin verði farin þá verður það mín krafa að Reykjavíkurborg beri ábyrgð á því,“ segir hann.