fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Dóru Björt brugðið yfir vöruhúsinu í Álfabakka – Viðstödd borgarráðsfund þar sem byggingarmagnið var samþykkt

Ritstjórn DV
Föstudaginn 13. desember 2024 19:44

Dóra Björt Guðjónsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata í borgarstjórn og formaður umhverfis- og skipulagsráðs vísar ábyrgð á því skipulagsslysi sem átt hefur sér stað í Álfabakka í Breiðholti á hendur byggingaraðila sem segist hins vegar allan tímann hafa viðhaft fulla samvinnu við Reykjavíkurborg. Dóra Björt segir að henni hafi verið mjög brugðið við fréttir af málinu en hún var þó viðstödd borgarráðsfund árið 2019 þar sem útboðsskilmálar vegna sölu byggingarréttar umræddra lóða voru samþykktir en í þeim kom skýrt fram að rétturinn væri 17.000 fermetrar. Þá var fjölbýlishúsið þó ekki komið til sögunnar.

Málið varðar eins og fram hefur komið í fjölmiðlum vöruhús sem verið er að byggja við Álfabakka 2 en það er svo nálægt íbúðarblokk við Árskóga að byggingin hefur skert verulega útsýni íbúa en aðeins 14 metrar eru frá þeim vegg blokkarinnar sem snýr að vöruhúsinu og að nýbyggingunni. Fjarlægðin er enn styttri ef hún er mæld frá svölum. Íbúar hafa einnig orðið fyrir verulegu ónæði af framkvæmdunum.

Ömurlegt

Dóra Björt skrifar á Facebook að henni hafi brugðið mjög við fréttaflutning af málinu. Hún segir málið skýrt dæmi um hvað gerist ef einkaaðilum sé veitt of mikið svigrúm í skipulagsmálum og nýbyggingum. Skipulagið sem framkvæmdirnar byggi á hafi verið samþykkt fyrir hennar tíð í borgarstjórn:

„Þetta er ömurlegt og ég er bara miður mín. 

Atvinnuhúsaakipulagið er 15 ára gamalt í grunninn og þessi nánd milli húsanna stafar frá 2015 sem er fyrir mína tíð í borgarstjórn svo ég þekki ekki alveg forsendur nema að breytingin að beiðni Búseta flutti íbúðahúsnæðið nær atvinnuhúsinu. Mér var sagt að þarna kæmu höfuðstöðvar Haga og taldi víst að það yrði frábært fyrir hverfið með flottri ásýnd, áhugaverðum störfum, lífi og þjónustu. Þess vegna fékk ég hálfgert sjokk þegar ég sá í hvað stefndi.

Þetta er dæmi um það hvers vegna við þurfum fleiri kvaðir og stífari ramma í kringum skipulag. Einkaaðilum er augljóslega ekki alltaf treystandi fyrir of miklu svigrúmi og hér lutu gæði og metnaður í lægra haldi.“

Meira aðhald

Dóra Björt segir að bæta þurfi úr og sýna meira aðhald í þessum málum:

„Ég fer fyrir vinnu við gerð borgarhönnunarstefnu sem gengur út á að tryggja betur gæði í skipulagi. Oft er kvartað yfir að það séu of miklar kvaðir og reglur og að kerfin flækist of mikið fyrir og að það þurfi að einfalda byggingarreglugerð og eitthvað slíkt – en ég held að við þurfum frekar að tala aðhald og kvaðir upp.

Þetta er ekki í lagi og við ætlum að fara yfir feril máls í ráðinu til að laga það sem þarf. Sem betur fer virðist vera vilji af hendi uppbyggingaraðila til að bæta úr sömuleiðis.

Viðstödd

Dóra Björt var viðstödd fund borgarráðs í mars 2019 þegar útboðsskilmálar vegna sölu byggingarréttar lóðanna við Álfabakka 2a, 2b, 2c og 2d voru samþykktir. Samkvæmt þeim var byggingarrétturinn samtals 17.000 fermetrar á lóðunum fjórum sem voru allar hver við hlið annarrar. Því virðist hafa legið ljóst fyrir hvert byggingamagnið ætti að vera.

Samkvæmt útboðsskilmálunum byggðu þeir á deiliskipulagi frá 2015 en því var síðan breytt 2022 og lóðirnar sameinaðar í eina, Álfabakka 2A. Samkvæmt breytingunni var byggingarrétturinn minnkaður niður í 15.000 fermetra og byggingarréttur lengdur til norðurs og sú breyting var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði og síðan borgarráði í október 2022. Dóra Björt var viðstödd hvorugan fundinn og tók ekki við formennsku í fyrrnefnda ráðinu fyrr en síðar.

Bygging vöruhússins hófst síðan í kjölfarið en það á þó að vera um 11.500 fermetrar en ekki 15.000.

Á þeim tímapuntki var fjölbýlishúsið komið til sögunnar en byggingarár þess er 2021. Því má velta fyrir sér hvort að það hafi ekki mátt liggja fyrir hjá borginni hversu nálægt vöruhúsið yrði fjölbýlishúsinu.

Þekkti byggingarmagnið en líklega ekki nálægðina

Í ljósi alls þessa má deila um hversu mikið Dóra Björt hefði mátt vita um hvað stefndi í. Þar sem hún var viðstödd þegar útboðsskilmálar vegna byggingarréttar við Álfabakka voru samþykktir árið 2019, áður en fjölbýlishúsið var byggt, hefði hún átt að vita að þar stæðu til víðtæk byggingaráform. Þar sem hún var ekki viðstödd fundi árið 2022 þar sem áðurnefnd breyting á deiliskipulagi og í kjölfarið fyrirhuguðum framkvæmdum var samþykkt, eftir tilkomu fjölbýlishússins, virðist líklegt að hún hafi ekki gert sér grein fyrir nálægðinni.

Velta má hins vegar fyrir sér hvort það hefði ekki átt hins vegar að liggja fyrir þegar frá samþykkt deiluskipulagsins frá 2015 að atvinnuhúsnæðið við Álfabakka 2 yrði svo nálægt fyrirhuguðu fjölbýlishúsi við Árskóga 7.

Ábyrgðin

Eins og áður segir varpaði Dóra Björt í Facebook-færslu sinni ábyrgðinni að miklu leyti á byggingaraðilann.

Álfabakki 2 ehf. sem stendur fyrir byggingu vöruhússins greindi frá því í tilkynningu fyrr í dag að fyrirtækið hafi alfarið farið eftir vilja Reykjavíkurborgar og gildandi deiluskipulagi við bygginguna. Borgin hafi samþykkt allar teikningar. Fyrirtækið hafi óskað eftir því að byggingarrétturinn yrði minnkaður niður í 11.500 fermetra. Við því hafi ekki verið orðið og fyrirtækið því greitt fyrir 15.000 fermetra byggingarrétt þótt byggingin verði aðeins 11.500 fermetrar.

Minnir fyrirtækið á að deiliskipulagið og framkvæmdirnar hafi verið kynnt af hálfu Reykjavíkurborgar samkvæmt lögbundnu ferli.

Hins vegar virðist sú kynning hafa farið framhjá nágrönnum vöruhússins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Læknir vill bólusetningar við RS veiru – „Legudeildin full af börnum með sýkinguna“

Læknir vill bólusetningar við RS veiru – „Legudeildin full af börnum með sýkinguna“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“
Fréttir
Í gær

Heimilt að gera fjárnám hjá Isavia

Heimilt að gera fjárnám hjá Isavia
Fréttir
Í gær

Verðbréf hrynja hjá United Health Group eftir morðið á Thompson – Hatur í garð sjúkratryggingakerfisins blossaði upp

Verðbréf hrynja hjá United Health Group eftir morðið á Thompson – Hatur í garð sjúkratryggingakerfisins blossaði upp
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg
Fréttir
Í gær

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við

Þetta er góð táknmynd af þeim stóra vanda sem Pútín glímir við