Dómur yfir manni á sjötugsaldri sem olli dauða eiginkonu sinnar hefur vakið reiði í samfélaginu. Konan lést eftir langvarandi misþyrmingar mannsins en hann var ekki sakfelldur fyrir manndráp þar sem dómarar töldu að ásetningur hans á verknaðarstundu hafi ekki staðið til þess að bana konunni. Var hann dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás.
Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir í viðtali við Vísir.is að dómurinn sé vonbrigði. „Við erum alltaf að reyna að berjast fyrir því að við séum að senda skilaboð út í samfélagið um að heimilisofbeldi og kvennamorð séu á sama stað og önnur morð, annað ofbeldi. Fyrr erum við ekkert að fara að vinna þessa baráttu gegn kynbundnu ofbeldi,“ segir hún.
Linda segir furðu sæta að dómurinn sé ekki þyngri en 12 ára fangelsi. Í dóminum er einnig greint frá fjölda atvika þar sem lögregla var kölluð til heimilis hjónanna vegna ofbeldis, allt aftur til ársins 1999. Lindu grunar að dómurinn sé vægari en ella vegna þess að um heimilisofbeldi er að ræða:
„Maður hefur það á tilfinningunni að það vinni gegn dómnum að þetta sé heimilisofbeldi, að þetta langvarandi hræðilega ofbeldi sem hefur átt sér stað skuli enda svona. Ef þetta hefði verið utanaðkomandi aðili sem hefði komið inn á heimilið og framið slíkan verknað, því ef maður les dóminn þá er verknaðurinn greinilega til þess fallinn að valda miklum skaða, þá hugsar maður sig um hvort dómurinn hefði hljómað öðruvísi.“
Aðgerðasinninn Ólöf Tara Harðardóttir ritar pistil á Facebook-síðu sína þar sem hún gagnrýnir dóminn harðlega. Rifjar hún upp fyrri morð karla gegn eiginkonum sínum þar sem hún telur réttarkerfið hafa farið mildum höndum um morðingjana:
„Aðgerðarleysi stjórnvalda kostar konur lífið. Það er ekki nóg með það að ofbeldi gegn konum er hægt að fremja algjörlega afleiðingalaust heldur þá er maður sem myrðir konuna sína ekki einu sinni dæmdur fyrir manndráp. Dóminum þótti ekki liggja fyrir ásetningur, maðurinn sem terroræsað hana og börnin sín í þrjá áratugi hefur augljóslega engan ásetning á að myrða neinn er það? Lýsingar á áverkum hennar bæði þeim sem leiddu til dauða sem og gömlu áverkandir sem fundust við krufningu segja allt sem segja þarf. Fyrir utan áverkana lýsa synir hennar því eflaust best sjálfir í vitnisburði sínum hversu alvarlegt ofbeldið var ,, gott að þessu skuli vera lokið” og „Þetta hafi bara verið venjan en nú sé þessu ofbeldi alla vega lokið.“.
Árið 1961 var Húbert Rósmann Morthens dæmdur fyrir að hafa myrt konu sína Ásbjörgu Haraldsdóttir – Hæstiréttur mildaði dóminn þar sem afbrýðisemi var ástæða morðsins.
Magnús Einarsson myrti eiginkonu sína Sæunni Pálsdóttur árið 2004 vegna afbrýðisemi. Afbrýðusemin kom til refsilækkunar.
Svo er það árið 2024 þar sem maður er ekki dæmdur fyrir manndráp gegn konu sinni og barnsmóður, þar sem ekki tókst að sanna að hann hafi ætlað að drepa hana.
Ég gæti haldið áfram að telja saman, þar sem ég hef síðastliðin tvö ár skoðað kvenmorð á Íslandi, dregið saman tíðni kvenmorða og lesið marga þessara dómana, en er ekki bara nóg að staðan hafi ekki batnað og standi bara á sama stað og árið nítjánhundruð og fokking sextíu og eitt?
Ég get ekki komið því í orð hvað það er ógnvekjandi að horfa á þróun dóma í málum sem snerta kynbundið ofbeldi. Þessi slæma þróun hefur stigmagnast undafarin ár og náði nýjum toppi núna árið 2024.
Það er ógnvekjandi að horfa á samfélagið reiðast yfir einstaka málum og halda að það svona dómar slædi bara stundum í gegn.
Þetta er venjan, ekki undantekningin.
Ég ætla að lokum að endurtaka orðin mín úr kertavökunni síðastliðinn október.
,,Feminíska paradísinn okkar útskrifar þolendur heimilisofbeldis í hendur geranda sinna eftir innlögn og aðhlynningu á Landspítalanum. Íslensk rannsókn sem birt var árið 2021 leiddi í ljós að meirihluti kvenna sem leggjast inn á Landspítalan vegna heimilisofbeldis eru útskrifaðar aftur heim, í umræddri rannsókn kom fram að
– 8% kvennanna höfðu erlent ríkisfang.
– Meðal legutími þeirra voru 20 dagar, í nokkrum tilfellum var legutími 100 dagar og lengst 267 dagar.
– Í meirihluta tilvika var gerandi núverandi maki, í 24% tilvika var gerandi fyrrum maki.
– 14% kvennanna í úrtakinu eru nú látnar og var meðalaldur þeirra 52 ár.
– Að meðaltali voru liðin 2,7 ár frá því þær höfðu legið inná landspítala vegna heimilisofbeldis þegar þær létust.“
Heitar umræður eru um málið í „Baráttuhópi gegn ofbeldismenningu“ á Facbook. Þar er gagnrýnt að maðurinn hafi ekki verið sakfelldur fyrir manndráp, hann hafi hlotið of vægan dóm og að hann njóti nafnleyndar. „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd, þetta er stórhættulegur einstaklingur,“ segir ein kona.
Önnur kona andmælir því að maðurinn hafi ekki haft ásetning um manndráp:
„Ásetningurinn gæti ekki verið augljósari. Líf hennar var einskis virði í hans augum, hann ætlaði að drepa hana. Þegar þu beitir manneskju ofbeldi er mikil áhætta tekin. Því þú veist að það getur endað með dauða. Það þarf ekki annað en eitt högg til að taka líf.
Þegar maður ítrekað leikur sér að lífi konunnar sinnar með því að deyða hana andlega á sama tima og mórkin hversu mikið likamlegt ofbeldi hún getur tekið og hvernig, þá er planið skyrt. Hann er að taka tima í að pynta hana vitandi að það mun koma sá timapunktur að það hættir að gefa honum nægilega mikið svo hann gengur vísvitandi gengur yfir eigin brengluðu að hann telur siðferðislegu linu og murkar úr henni lífið.“
Nafnlaus aðili sem hefur umræðuna segir:
„Það er með ólíkindum að búa í samfélagi sem dæmir áratugalangt heimilisofbeldi með þessum hætti. Ekki manndráp. Hann ætlaði ekki að drepa hana? Hversu agnarsmár og ómerkilegur er skilningur og vilji dómskerfis, lagaumhverfis og lögreglu og áhersla veik á að uppræta ofbeldi gegn konum og börnum?“