Fyrrverandi framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR), Ari Hermóður Jafetsson, var í morgun sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fjárdrátt í starfi sínu fyrir félagið. Brotin voru framin á árunum 2017-2018.
Í ákæru er Ari sagður hafa dregið sér samtals 1.665.600 krónur. Í ákæru eru lýsingar á bókhaldsbrellum sem Ari á að hafa viðhaft í því skyni að láta félagið greiða fyrir sig veiðileyfi og tannlæknakostnað.
Málið kom upp árið 2020 en í desember það ár greindi Vísir frá því að Ari væri grunaður um að hafa braskað með veiðileyfi til eigin hagsbóta. Var hann kærður til lögreglu fyrir fjárdrátt um þetta leyti. Er því ljóst að málið hefur verið afar lengi í rannsókn.
Dómurinn var kveðinn upp í morgun en hefur ekki verið birtur á vefsíðu dómstólanna. Samkvæmt upplýsingum frá héraðssaksóknara var Ari dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða sakarkostnað upp á 650 þúsund krónur.
Ekki kom til fjársektar en Ari hafði gert samning um fullnaðaruppgjör við SVFR og var það lagt fram við málflutning.