Í Írak var einræðisherranum Saddam Hussein velt af stalli 2003 og í Líbíu urðu örlög starfsbróður hans, Muammar Gaddafi, hin sömu 2011. Í kjölfarið ríkti ringulreið í báðum löndum því einræðisherrarnir skildu eftir sig valdatómarúm og engir augljósir kandídatar voru reiðubúnir til að taka við.
Afleiðingarnar urðu blóðug valdabarátta, upplausn, borgarastyrjöld, rán og hefndaraðgerðir. Inngrip alþjóðasamfélagsins í þessum tveimur löndum tryggðu ekki jafnvægi.
Það sama getur gerst í Sýrlandi því ekki er gefið að uppreisnarleiðtoginn Abu Mohammad al-Jolani verði forseti landsins þrátt fyrir að Hayat Tahrir al-Sham hreyfing hans hafi verið í fararbroddi í skyndisókninni gegn stjórnarher Assad.
Aðrir hópar munu blanda sér í valdabaráttuna og á hliðarlínunni reyna mörg ríki, af mismunandi ástæðum, að hafa áhrif á þróun mála.
Fimm mikilvægustu leikendurnir í þessu spili eru:
Tyrkland – Tyrkir styðja Hayat Tahrir al-Sham sem á rætur að rekja til Íslamska ríkisins og al-Kaída. Samtökin eru meðal annars á lista Bandaríkjanna yfir hryðjuverkasamtök. Þetta er hreyfing súnímúslima sem eru íhaldssamir, einræðissinnaðir og hafa lítið umburðarlyndi gagnvart fólki sem ekki hefur sömu trú og þeir. Á síðustu árum hafa þeir reynt að breyta þessari mynd með því að reyna að virðast vera raunsærri.
Í sigurávarpi sínu hvatti Abu Mohammad al-Jolani, til samstöðu þjóðarinnar en sagði um leið að framtíð Sýrlands væri að „vera leiðarljós hins íslamska heims“.
Ekki er vitað hvað hann átti við með þessu en ljóst er að það verður á brattann að sækja hjá uppreisnarmönnunum ef þeir ætla að reyna að gera sýrlenskt samfélag íhaldssamara. Meirihluti múslima landsins tilheyrir hófsömum og frjálslyndum væng trúarinnar og töluvert stór hluti þjóðarinnar er kristinnar trúar, Drúsar eða Kúrdar.
Af þessum sökum má sjá framtíð landsins fyrir sér sem allt frá lýðræði þar sem veraldleg sjónarmið ráða ríkjum til harðstjórnar íslamskra klerka, ekki ósvipað því sem er í Íran.
Áhugi Tyrkja á valdaskiptum í Sýrlandi byggist á von þeirra um að geta þá sent rúmlega þrjár milljónir sýrlenskra flóttamanna aftur heim en líklega hafa Tyrkir lítinn áhuga á að harðlínuklerkastjórn taki völdin í landinu, svona rétt við bæjardyrnar.
Bandaríkin – Líklega vita ekki margir hversu öflugir Bandaríkjamenn eru í Sýrlandi. Þeir eru með herstöðvar þar og hafa haft þá stefnu að halda hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamska ríkið niðri.
Bandaríkjamenn vinna með Syrian Democratic Forces sem ráða lögum og lofum á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í norðausturhluta landsins.
Bandaríkin og Tyrkland standa því gegnt hvort öðru í Sýrlandi því löndin styðja sitt hvora hreyfinguna.
Bandaríkjamenn vilja gjarnan komast frá Sýrlandi en telja ástandið of ótryggt til að það sé hægt.
Íran – Fall Assad kemur illa við Íran. Assad var náinn bandamaður klerkastjórnarinnar í Teheran. Sífellt meiri þrýstingur er á klerkastjórnina eftir sigur Ísraela á Hizbolla, sem Íranir styðja, í Líbanon. Donald Trump hefur einnig haft í hótunum um að allt verði brjálað í Miðausturlöndum ef Hamas, sem Íranir styðja einnig, láti ekki alla gíslana, sem samtökin tóku í hryðjuverkaárásinni á Ísrael í október á síðasta ári, lausa fyrir 20. janúar.
Þegar uppreisnarmenn sóttu hratt í átt að Damaskus reyndu Íranir að koma Assad til hjálpar með því að senda uppreisnarmenn inn í Sýrland frá Írak en það breytti engu.
Rússland – Rússar misstu einnig mikið þegar Assad hrökklaðist frá völdum. Vladímír Pútín var einn mesti stuðningsmaður Assad og því engin tilviljun að Assad og fjölskylda hafi fengið hæli í Rússlandi.
Rússar berjast nú við að halda tveimur mikilvægum herstöðvum í Sýrlandi. Þetta eru flugvöllur við Latakia og flotastöð við Tartus en hún hefur verið undir rússneskri stjórn síðan 2011 en þá sendi Pútín hersveitir til Sýrlands til að hjálpa Assad að berja uppreisn almennings niður.
Þessar herstöðvar eru eina fótfesta Rússa við Miðjarðarhaf og mikilvægar fyrir flutninga á mönnum og birgðum til Afríku en þar láta Rússar til sín taka.
Ísrael – Fall Assad hefur verið hrein gjöf fyrir Ísrael fram að þessu. Ísraelska ríkisstjórnin flýtti sér að koma upp stuðpúðasvæði í Gólanhæðum og ísraelskar orustuþotur hafa gert nokkur hundruð árásir á skotmörk í Sýrlandi. Þær hafa beinst að flugvöllum, geymsluhúsnæði, ratsjám og vopna- og skotfærageymslum.
Það er síðan auka bónus fyrir Ísrael að fall Assad gerði að verkum að birgðalínur Hizbollah frá Íran til Líbanon í gegnum Sýrland eru nú lokaðar.