Ragnar Jónsson, blóðferlasérfræðingur í tæknideild lögreglunnar, rifjar upp mótmæli við Alþingi árið 2009 þegar tugþúsundir íslendinga mótmæltu stjórnvöldum í bankahruninu.
„Þegar allt fór úr böndunum þarna árið 2009 þá var ég að koma úr ráni úr apóteki þar sem einhver fíkill hafði í leit að efnum bara snappað og rænt staðinn. Ég var þarna að leita að fingraförum og skóförum og tryggja upptökur. Svo þegar ég kem út í bíl þá heyri ég bara neyðarkall frá Austurvell og að það þurfi alla tiltæka lögreglumenn niður eftir. Ég hugsaði að þótt ég sé í rannsókn þá get ég ekkert slökkt á talstöðinni og farið bara heim og láta eins og ég hafi ekkert heyrt þetta. Ég er lögreglumaður og þarna eru margir vinir mínir, fólk sem var með mér í lögregluskólanum og fólk sem ég hef þekkt í yfir 20 ár. Þannig að ég fer þarna niður eftir og kem við á stöðinni til að sækja búnað að þá var til gamall hjálmur, enginn hlífðarbúnaður en ég fékk langa kylfu og táragasgrímu og svo varð ég bara að fara niður eftir.“
Ragnar er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni á Brotkast. Í þættinum fer Ragnar yfir feril sinn í lögreglunni sem spannar 33 ár og ræðir um verkefni tæknideildarinnar sem eru ansi fjölbreytt.
„Um leið og ég kem niður á Alþingi að þá er bara búið að taka ákvörðun um að dreifa mannfjöldanum og nota táragas í fyrsta skipti síðan 1949. Ég hugsaði bara ókei, ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir. Hver manneskja skiptir máli svo við virkum fleiri en við raunverulega vorum. Þannig að ég er bara að fara að upplifa það að labba út með óeirðarsveitinni og sérsveitarmönnum og að við séum að fara að nota táragas á samborgara mína. Og við gerum þetta, maður fann hjartað byrja að hamast og heyrði illa í talstöðinni, það voru svo mikil læti, og svo var þessu skotið en svo breyttist vindáttin. Mannfjöldinn dreifðist aðeins og við röltum rólegir tilbaka og maður hugsar, jæja nú hlýtur þetta að vera búið. Skítakuldi úti og enginn meiddur hérna og þetta hlýtur að vera í lagi. Vindáttin breyttist og fólkið kom ennþá reiðara til baka og fór að grýta múrsteinum yfir okkur og öllu saman,“ segir Ragnar.
Aðspurður segir hann að gasið hafi bara farið út í buskann, og því alls ekki haft tilætlaðan árangur.
„Við erum 14 kannski sem vorum alveg upp að nýrri byggingunni, innganginum, með bakið upp að vegg. Ég var í aftari línu í engri brynju og ég fann alveg grjótið fyrst lenda í veggnum og svo í bakinu á mér. Þeir voru með skjaldarsveitina fyrir framan og við vorum þrír eða fjórir fyrir aftan línuna. Svo allt í einu sé ég út undan mér að sá sem stóð við hliðina á mér dettur niður og þá fékk hann stærðarinnar hellustein í hliðina á hausnum. Mörgum dögum seinna vigtuðum við svona stein, þetta er hvað 3,4 kíló. Ég og sá sem stýrði aðgerðinni drögum hann með okkur fyrir hornið og erum að reyna að komast inn í hliðargang. Í því rignir yfir okkur grjóti, ég fékk grjót í öxlina á mér, ég missi kylfuna en greip hana með vinstri og reyndum að hraða okkur eins og við gátum inn í hús.“
Ragnar varði nóttinni á bráðamótttökunni með félaga sínum og einnig til að láta athuga eigin meiðsli.
„Ég hugsaði minna um mig og var meira að hugsa um hann, hann var illa áttaður, hvaða dagur væri og hvað væru margir puttar. Bara verulega vankaður. Þarna er okkur mokað inn á slysavaktina bakdyramegin, rifnir úr öllum fötunum af því við vorum allir í gasduftinu. Á sama tíma sé ég fólk sem er að láta koma og skola sig líka, mótmælendur. Þetta var rosalega skrítin tilfinning. Ég kem ekki heim fyrr en undir morgun og leggst bara í sófann heima. Enn verkjaður og einhvern veginn ringlaður, reiður og pirraður að hafa lent í þessum aðstæðum. Og hafði heyrt upp á slysadeild að það hefðu fleiri slasast, bæði við Alþingishúsið og Stjórnarráðið. Á þessum tíma vorum við ekki að vinna almennilega úr þessu, þannig að þegar ég sá fréttaflutning í lok árs þar sem var verið að rifja upp þessi mótmæli, þá stóð ég bara upp og slökkti, ég nennti ekki að endurupplifa þetta.“
Hlusta má á viðtalið við Ragnar í heild sinni á brotkast.is.