Tónlistargagnrýnandinn Jónas Sen gaf hátíðartónleikum Bríetar í Hörpu á sunnudag falleinkunn og kallaði söngstíl söngkonunnar undarlegan. Jónas gaf tónleikunum tvær og hálfa stjörnu af fimm mögulegum. Gagnrýnin birtist hjá Vísi í dag.
Neikvæð gagnrýni heyrir nú til tíðinda á Íslandi enda samfélagið okkar lítið. Til dæmis fjallaði Lestin um það fyrir tveimur árum að neikvæðir bókadómar á Goodreads séu særandi fyrir rithöfunda.
Sjá einnig: Gefur Bríet falleinkunn fyrir tónleika – „Stundum var líkt og söngkonan syngi í gegnum nefið“
Sálfræðingurinn og tónlistarmaðurinn Birgir Örn Steinarsson, einnig þekkur sem Biggi í Maus, hefur nú komið Bríeti til varna. Hann skrifar á Facebook að hann hafi sjálfur mátt þola mótlæti allan sinn tónlistarferil sem spanni samt rúm 30 ár.
„Ég er söngvari sem hef þurft að þola mótlæti alla mína tíð. Samt er ég rúmlega 30 ár inn í feril minn – ennþá að gefa út og halda tónleika og vitið hvað! Fólk mætir og hlustar enn. Ég veit af fyrstu hendi hvað svona hrokafullir sleggjudómar geta gert fyrir sálartetur ungra listamanna. Var nánast afskrifaður á sínum tíma eftir mjög opinbera slettu frá eldri fýluköllum.“
Biggi tekur fram að stíll Bríetar sé ekki undarlegur heldur einstakur. Slíkt beri að upphefja frekar en að rífa niður.
„Hennar rödd og stíll eru guðsgjöf – sama hvort þér finnist hann undarlegur eða ekki… það er engin eins og Bríet. Afhverju er gagnrýnandi að tala niður þar sem honum þykir ‘undarlegt’ í stað þess að upphefja það sem er einstakt? Bríet mun þola þetta… og veistu hvað, sama hvað… þá verður Bríet enn eftirminnileg eftir 30 ár… en þú?“
Færsla Bigga hefur vakið nokkuð umtal og hafa nafntogaðir einstaklingar tjáð sig í athugasemdum.
Útvarpsmaðurinn Ómar Úlfur Eyþórsson segir að hvað sem fólki finnist um dóm Jónasar Sen þá sé raunveruleikinn svo að það þurfi að koma slæmir dómar. Það sé orðin einhver íslensk tilhneiging að birta bara jákvæða gagnrýni. Ómar rifjar það upp að á árum áður skrifaði þáverandi blaðamaður Reykjavík Grapevine, Sindri Eldon, tónlistargagnrýni sem ekki var alltaf jákvæð, og hlaut skammir í hattinn fyrir vikið.
„Alveg burtséð frá þessum dómi þá verða að koma slæmir dómar líka. Það er ægileg lenska hér að gefa bara góða dóma. Það getur ekki alltaf allt verið gott. Sindri Eldon var næstum hrakinn úr landi fyrir tónlistarrýni sína hér um árið sem alltaf var hressandi og oftar en ekki spot on. Gagnrýnandi sem segir allt gott og frábært missir fljótt marks og næstum allir gagnrýnendur í öllum listum hér falla í þessa gryfju. Niðurrif er alltaf óþarfi í góðri rýni samt sem áður! Svo er smekkurinn auðvitað rosalega misjafn. Ást & virðing“
Birgir svarar Ómari og segist sammála því að það megi birta slæma dóma. Það megi þó gagnrýna það að Jónas Sen hafi viljandi mætt á tónleika Bríetar og því mátt vita hvernig hennar stíll er. Það sé því undarlegt að gagnrýna það sérstaklega.
„Alveg sammála um að það megi gefa slæma dóma. Hr. Sen er samt að mæta á gigg með söngkonu sem hann veit alveg hvernig syngur og gera það að sérstöku umtalsefni hér sem eitthvað ‘undarlegt’. Það er eins og að mæta á hiphop gigg og kvarta yfir því að allir hafi verið að rappa í stað þess að syngja.“
Tónlistarmaðurinn Magni Ásgeirsson, sem gerði garðinn frægan með Á móti sól, veltir því fyrir sér hvers vegna það þurfi almennt að birta dóma og að Sindri Eldon hafi á sínum tíma helst gagnrýnt stefnur sem hann var ekki hrifinn af.
„Af hverju að dæma opinberlega? Hvernig á að ákveða hver gagnrýnir hvað? Minnir að Sindri hafi aðallega gagnrýnt tónlistarstefnur sem honum fannst fokk leiðinlegar. Ekki er ég hæfur til að rýna í óperur? Við fengum ljómandi skammt af vondum dómum og drulli í gegnum tíðina frá „úlpu“ liðinu sem þoldi FM hnakkana ákaflega illa og okkur fannst það ekkert gaman. Á ekki bara að taka fólk i könnun eftir giggin? Ef yfir 50% þeirra sem keyptu miða fannst leiðinlegt hættir viðkomandi að spila á tónleikum….Survivor style!“
Stefán Jakobsson úr Dimmu rifjar upp að Sindri Eldon hafi eitt sinn skrifað stórskemmtilegan dóm þar sem hann skrifaði upp ímyndað samtal hljómsveitarmeðlima.
„Í stuttu máli fjallaði það um að þeir væru að ræða saman um hvernig þeir ætluðu að hafa samræði við hvorn annan. Restin af dómnum var í sama stíl. Ómálefnalegt en.. mjög skemmtileg lesning“
Ómar Úlfur tók aftur til máls og benti á að gagnrýni sé að vissu leyti huglæg og því frekar skoðun en einhver algildur dómur um frammistöðu.
„Þetta er auðvitað rosalega huglægt og ætti í raun að heita Þetta finnst mér – skoðanapistill. Mér persónulega finnst hressandi þegar einhver er á annarri skoðun en ég. Á það til að ærast þegar að ég hlusta á tónlistarhlaðvörp þar sem að þáttastjórnendum finnst eitthvað annað en mér. En slæmu dómarnir eru eftirminnilegri. Núna um daginn var leiksýningu í þjóðleikhúsinu slátrað og aldrei gleymi ég gagnrýni á endurkomu tónleika Jet Black Joe fyrir nokkrum árum. Man í rauninni bara eftir einum jákvæðum. Það var þegar hin annars ágæta plata Glacial Landscapes, Religion, Opression & Alcohol með hljómsveitinni Reykjavík! fékk 18 stjörnu dóm sem að mér fannst heldur mikið þrátt fyrir að platan sé ágæt.“
Hvannadalsbróðirinn Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson segir að það sé svo stóra spurningin hvernig listafólk bregst við gagnrýni. Til dæmis hafi hann heyrt sögu af því að eitt upplag af Reykjavík Grapevine hafi lent í Ölfusá fyrir mörgum árum síðan. Ástæðan var sú að í blaðinu var að finna slæman dóm um hljómsveit sem blaðaburðadrengurinn var í.
Útvarpsmaðurinn og tónlistarmaðurinn , Þórður Helgi Þórðarson – einnig þekktur sem Doddi litli – tekur fram að önnur söngkona sé þekkt fyrir undarlegan stíl. Það sé Björk Guðmundsdóttir sem sé mikil vinkona Jónasar Sen. Hann hafi þó aldrei gert hennan einstaka stíl að sérstöku umfjöllunarefni í dóm.
„Björk besta vinkona „rýnanda“ syngur undarlega en er stórkostleg. Ég hef ekki séð þetta Sení minnast á hennar undarlegheit“
Tónlistarmaðurinn Pétur Ben segist ekki sannfærður um að það sé einu sinni þörf fyrir gagnrýni.
„Ég var að hugsa alveg það sama. Sumir segja að gagnrýni sé nauðsynleg en ég er ekki sammála. Við sem búum eitthvað til í þessum heimi höfum ekkert við þetta að gera. Það eina sem svona skrif gera er að skapa ótta og spennu. Svo er vert að hafa í huga að aðgát skal höfð í nærveru sálar.“