Björgunarsveitir frá Tálknafirði, Patreksfirði og Bíldudal hafa verið kallaðar út í Tálknafjörð til að leita einstaklings sem ekki hefur náðst í um tíma. Frá þessu greinir lögreglan á Vestfjörðum. Bifreið þess sem er leitað fannst við Tálknafjörð síðdegis og miðast leitin við það svæði. Nánustu aðstandendur eru sagðir upplýstir um málið og er ekki unnt að gefa frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.