fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fréttir

Fá ekki að rannsaka sólarorku á Miðnesheiði

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 11. desember 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur staðfest þá niðurstöðu Orkustofnunar að synja fyrirtækinu Íslensk gagnavinnsla um rannsóknarleyfi til að kanna nýtingu sólarorku á Miðnesheiði, á landi sem er hluti af sveitarfélaginu Suðurnesjabæ. Byggir synjunin á því að heimild skorti í tilheyrandi lögum til að veita slíkt leyfi.

Í september síðastliðnum lagði fyrirtækið fram umsókn til Orkustofnunar um leyfi til að rannsaka möguleika á raforkuvinnslu í sólarorkuveri á Miðnesheiði, í Suðurnesjabæ. Var umsóknin lögð fram með vísan til raforkulaga og laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðum. Sótti félagið um leyfi til fimm ára og kom fram í umsókninni að áætlað væri að niðurstaða fengist um hagkvæmni orkuversins innan þeirra tímamarka. Í svarbréfi Orkustofnunar, í október 2024, var rakið að í þeirri grein raforkulaga, sem umsóknin byggði á, væri vísað til þess að um rannsóknir og kannanir á orkulindum til undirbúnings raforkuframleiðslu gildi lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðum. Þau lög taki aftur á móti ekki til sólarorku og sé þessi grein raforkulaga ekki fullnægjandi heimild til þess að útvíkka gildissvið auðlindalaganna. Með vísan til þess hafnaði Orkustofnun umsókninni.

Miklir hagsmunir

Í kæru fyrirtækisins segir að sumarið 2022 hafi það sett upp í rannsóknarskyni lítið sólarorkuver í samstarfi við bændur í Leirársveit í Hvalfjarðarsveit, en orkuverið hafi ekki verið leyfisskylt þar sem stærð þess hafi verið undir 10 kílówöttum. Eftir tvö ár hafi fengist skýr rannsóknargögn sem segðu til um hagkvæmni, nýtingartíma, afl og orku, styrk, endingu og ýmsar aðrar upplýsingar. Í framhaldi hafi verið gerður undirbúningur að rekstri 2,4 megawatta sólarorkuvers með 60 ára rekstrartíma á hentugu landsvæði á Miðnesheiði. Leitað hafi verið samninga við raforkusala um sölu orkunnar en auk þess hafi samningaviðræður átt sér stað við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og Ríkiseignir um afnot af landinu. Á þeim grundvelli hafi verið ákveðið að sækja um rannsóknarleyfi, en fjárhagslegir hagsmunir fyrirtækisins af því að fá að setja upp sólarorkuver nemi hundruðum milljóna króna.

Vildi fyrirtækið meina að Orkustofnun túlkaði áðurnefnd lög allt of þröngt. Auðlindalögin eigi vissulega ekki við um sólarorku en þau réttindi sem rannsóknarleyfi veiti eigi við um þess konar orku miðað við tilskipanir ESB. Vilji löggjafans sé sá að tryggja jafnræði, óháð því hvers konar orka eigi í hlut. Þar að auki tryggi raforkulögin að handhafi rannsóknarleyfis geti fengið fyrirheit um tengingu  við raforkukerfið en án þess sé staða rannsóknarverkefnisins allt önnur og lakari.

Lögin eigi ekki við um loftið

Í andsvörum Orkustofnunar var vísað til þess að það væri alveg skýrt að lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðum ættu ekki við um sólarorku. Í 1. grein laganna væri sérstaklega tekið fram að lögin tækju til auðlinda í jörðu í landi og í vatni. Lögin beri með sér að þeim hafi ekki verið ætlað að ná til annarra rannsóknarkosta en þeim sem væru ekki á landi eða í vatni.

Í niðurstöðu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir ljóst að gildissvið laganna sé afmarkað við rannsóknir á auðlindum í jörðu og á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Með hliðsjón af þeirri skýru afmörkun verði ekki talið að rannsókn á nýtingu sólarorku heyri undir lögin. Verði því að hafna kröfunni um ógildingu ákvörðunar Orkustofnunar.

Ljóst er því að fyrirtækið fær ekki leyfi til að rannsaka á Miðnesheiði möguleika á því að nýta sólarorku til raforkuframleiðslu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Neitaði að gefa eftir flugvélarsæti sitt til barns í frekjukasti – Dómstólar taka málið fyrir

Neitaði að gefa eftir flugvélarsæti sitt til barns í frekjukasti – Dómstólar taka málið fyrir
Fréttir
Í gær

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“