Jón Valgeir Stefánsson, 23 ára gamall, hlaut sex mánaða dóm í héraðsdómi Reykjaness fyrir íkveikju, Jón Valgeir var jafnframt dæmdur til að greiða TM tryggingum hf. 15.605.544 krónur ásamt vöxtum og 150.000 krónur í málskostnað. Hann þarf jafnframt að greiða helming á móti ríkissjóði 2.418.000 króna málsvarnarlaun verjanda síns og einnig 41.500 króna sakarkostnað en að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.
Þann 23. nóvember 2023 var Jón Valgeir ákærður „fyrir eignaspjöll, húsbrot og brennu, en til vara eignaspjöll, húsbrot og stórfelld eignaspjöll, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 11. febrúar 2020, við […] í Hafnarfirði, brotið útiljós við sumarhús […], að óþekktu verðmæti og því næst farið heimildarlaust inn um glugga á sumarhúsi […], og þar inni kveikt eld, með þeim afleiðingum að sumarhúsið brann til grunna. Með athæfi sínu olli ákærði eldsvoða sem hafði í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna.“
Sjá einnig: Ungur maður ákærður fyrir að brenna niður sumarbústað
Málavextir eru raktir í dómi héraðsdóms. Þann 11. febrúar 2020 kl. 10:29 hinn 11. febrúar 2020 barst tilkynning um eld í sumarhúsi í […] við […]. Lögregla og slökkvilið fóru á vettvang. Í frumskýrslu lögreglu segir að á vettvangi hafi mátt sjá „að sumarhúsið var þegar brunnið og engan eld að sjá í rústunum.“
Við vegslóða upp að húsinu hafi mátt sjá skóför. Í umferð var upptaka sem staðfest væri að tekin hefði verið í sumarhúsinu og á henni sást Jón Valgeir Stefánsson og heyrðist í A. Mætti sjá á upptökunni sparkað upp hurð í húsinu. Í framhaldinu fékk lögregla tvær upptökur sendar. Í skýrslunni segir að á annarri hafi mátt sjá A sparka upp hurð í sumarhúsi en á hinni mátt sjá ákærða sitja undir stýri skemmdrar bifreiðar og loftpúðar framsæta sprungnir út. Þá segir í skýrslunni að frá nánar greindu fyrirtæki hafi lögregla fengið þær upplýsingar að faðir Jóns Valgeirs hafi klukkan 09:36 um morguninn óskað eftir að bifreiðin […] yrði sótt á […] þar sem ákærði hafi misst stjórn á henni og hún hafnað á steini og utan vegar. Hafi bifreiðin verið flutt á […]. Í skýrslunni segir að rannsókn hafi leitt í ljós að bifreiðinni hafi verið ekið út af 800 m frá sumarhúsinu.
Jón Valgeir og félagi hans voru handteknir, sögðust þeir hafa lent í umferðaróhappi og síðan gengið um, séð sumarbústaðinn og farið inn um glugga. Datt Jóni Valgeiri í hug að í sumarbústaðnum væri eitthvað sem þeir gætu tekið til að borga viðgerðina á bílnum.
Þeir hafi brotið hluti í bústaðnum, tæmt slökkvitæki með því að sprauta á hvern annan, og að lokum sagði Jón Valgeir að þeir ættu að kveikja í húsinu vegna fingrafara. Félagi hans sagðist hafa sagt að það væri ekki góð hugmynd. Jón Valgeir hafi sagt að það væri betra því hann væri á síðasta séns. Félagi hans sagðist hafa beðið hjá útidyrahurðinni þar til Jón Valgeir hefði verið búinn að kveikja í. Það hafi kviknað í og þeir svo hlaupið í burtu. Ákærði hafi kveikt í kodda og teppi við hliðina á vaskinum og svo tekið eldhúspappír og við og sett við arininn og kveikt í. Hann hafi sparkað í stól og sett við arininn og kviknað hafi í stólnum. Félagi hans sagðist hafa sagt fimm sinnum að þeir þyrftu að hringja en Jón Valgeir neitað. Það hafi logað í húsinu þegar þeir hafi farið, fyrst inni en þegar þeir hefðu verið komnir frá húsinu hafi eldur verið kominn upp og reykur. Þeir hafi farið upp á hól og ekki séð neitt nema loga. Spurður hvort þeir hafi reynt að slökkva neitaði félagi Jóns Valgeirs, þeir hafi verið búnir að tæma slökkvitækið áður.
Dómkvaddur matsmaður var fenginn til að meta hvort athæfið hefði valdið almannahættu sbr. 164. gr. almennra hegningarlaga og hvort íkveikjan hafi haft í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna. Fjallaði hann annars vegar um hvort mönnum hafi verið bersýnilegur lífsháski búinn og hins vegar hvort íkveikja hafi haft í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna. Um fyrra atriðið sagði hann: „Þegar eldurinn var kveiktur var enginn í sumarhúsinu utan ætlaðra brennumanna og því ekki hætta fyrir nokkurn þriðja aðila í sumarhúsinu þrátt fyrir að eldurinn valdi yfirtendrun í því og að það brenni til grunna. Almannahætta hefur því ekki verið til staðar fyrir fólk af þessum bruna og engum mönnum hefur verið bersýnilegur lífsháski búinn af eldsvoðanum hvorki í eigninni sem kveikt var í né utan hennar.“
Um síðara atriðið segir hann: „Vegna fullnægjandi fjarlægða frá sumarhúsinu að öðrum eignum er ekki hætta á að eldur eða reykur berist frá eldinum í þeim mæli að það valdi skemmdum á nálægum húsum, bifreiðum eða á öðru lausafé í næsta nágrenni sumarhússins og því er ekki hætta á að neinir aðrir hagsmunir færust eða spilltust utan sumarhússins […]. Almannahætta hefur því verið til staðar fyrir fjárhagshagsmuni af eldsvoðanum og ljóst að yfirgripsmikil eyðing verður á öllu sumarhúsinu […] en almannahætta er ekki til staðar utan sumarhússins hvorki á nálægum húsum, bifreiðum eða öðru lausafé.“
Ákærði óskaði eftir yfirmati og voru fengnir til þess byggingaverkfræðingur og byggingafræðingur. Um fyrra atriðið sögðu þeir: „Í lögregluskýrslu kemur fram að gróður sviðnaði (hávaxinn greniog birkitré) við sumarhúsið. Einnig að bruninn hafi orðið að vetri til, snjór á jörðu og veður var kyrrt (logn). Möguleiki gæti hafa orðið á gróðureldum eða sinu ef bruninn hefði átt sér stað á öðrum árstíma í öðru veðurlagi og þurrum gróðri. Einnig hefur verið sýnt fram á að vakandi eða sofandi fólk inni í slíku sumarhúsi getur orðið fyrir miklum skaða eða bana við aðstæður sem þessar […].“
Og um síðara atriðið: „Það er mat yfirmatsmanna að meinta háttsemi ákærða […] að kveikja í sumarhúsi […] við […] í […], aðfaranótt 11. febrúar 2020 hafi valdið almannahættu sbr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt því að íkveikjan hafi haft í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra.“
Fyrir dómi sagðist Jón Valgeir hafa verið 18 ára þegar athæfið átti sér stað. „Og ekki þorað að hringja í lögregluna, þó hugsanlega hefði hann átt að gera það. Nánar spurður sagðist hann hafa séð „blossann þarna bara í bakgrunninum sko, gegnum trén og allt, og tók það upp á snapchat.“ Félagi hans sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að Jón Valgeir hefði kveikt í kodda og teppi og svo eldhúspappír og sett við arininn. Jón Valgeir neitaði þessu og sagði að félagi hans hefði sagt þetta til að bjarga sjálfum sér á kostnað ákærða. Ákærði hefði frétt hvað félagi hans hefði sagt í skýrslutökunni og hefði því ákveðið „að taka þetta á mig og segja rétt frá“. Borið var undir ákærða það sem eftir félaga hans er haft í lögregluskýrslu, að ákærði hafi sagst ætla að kveika í bústaðnum vegna fingrafara. Ákærði neitaði þessu.
Verkfræðingur bar vitni fyrir dómi og taldi það engu hafa skipt þó hringt hefði verið í slökkvilið, bústaðurinn hefðu orðið alelda á 10 – 15 mínútum. Slökkvistarf hefði fremur snúist um að gæta þess að eldurinn breiddist ekki út í gróður.
Í niðurstöðu dómara kom fram að fyrir lægi að ekki var kallað á slökkvilið fyrr en eldurinn hafði slokknað. Yrði að leggja til grundvallar að eldurinn hafi slokknað án þess að neinar aðgerðir manna hafi hafi komið að til að slökkva. Eldurinn breiddist ekki út í nálæg hús og ekki munu hafa orðið umtalsverðar skemmdir á gróðri.
Í málinu lá bótakrafa af hálfu TM trygginga hf., en félagið greiddi umrædda fjárhæð í bætur til eigenda hússins sem brann. Kom ekkert fram í málinu sem leiða ætti til þess að krafan yrði lækkuð.
Jón Valgeir hefur áður komið við sögu dómstóla, en í einu máli var dæmdur fyrir ofbeldi í eftirminnilegu máli sem tengist Elliðavatni. Fékk hann níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hlut sinn í ofbeldi gegn manni sem neyddur var til afklæðast og vaða í Elliðavatn. DV fjallaði um málið í febrúar 2023. Íkveikjan sem Jón Valgeir hlaut nú dóm fyrir var framin áður en dæmd síðar en önnur mál sem hann hefur fengið dóma fyrir.