Miðað við fyrstu tölur úr öllum kjördæmum þá er ýmislegt sem bendir til þess að Inga Sæland og Flokkur fólksins verði í lykilstöðu þegar kemur að því að mynda næstu ríkisstjórn. Flokkur fólksins gæti valið að vinna til vinstri og hægri, til að mynda með Samfylkingu og Viðreisn, sem ætti þá 35 af 63 þingmönnum, eða með Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum, sem væri 32 manna meirihluti. Síðastnefndi kosturinn væri þó afar ólíklegur miðað við hvernig frambjóðendur Flokks Fólksins töluðu í kosningabaráttunni.
„Ég elska alla flokka,“ sagði Inga kát í formannsviðræðum á kosningavöku RÚV. Aðspurð varðandi ríkisstjórnasamstarf við Samfylkinguna og Viðreisn sagði Inga að hún hefði alltaf verið jafnaðarkona en sagði Samfylkinguna þó hafa svikið íslensku þjóðina á árum áður. Kristrún hefði þó fært flokkinn á betri stað, að hennar mati, og því var hún ekki afhuga hugmyndinni.
Segja má að stjórnarmyndunarviðræður hafi því nánast hafist í settinu á RÚV.