Sjómannasamband Íslands styður Eflingu í baráttu þeirra við stéttarfélagið Virðingu. Efling heldur því fram að stéttarfélagið sé gervistéttarfélag sem atvinnurekendur í veitingarekstri hafi stofnað til að brjóta á réttindum launafólks.
Sjómannasamband Íslands segir í stuðningsyfirlýsingu til Eflingar:
„Virðing er gult stéttarfélag. Stofnað af atvinnurekendum sem einskis svífast til að brjóta á réttindum launafólks. Það er skömm og svívirða að svona nokkuð skuli látið viðgangast. Dagvinnutími útvíkkaður fram á kvöld og á laugardögum.
Það liggur við að elstu menn muni ekki eftir dagvinnu fram á kvöld og á laugardögum. Hér er um afturför um marga áratugi að ræða á réttindum launafólks og sérstaklega láglaunafólks. Eins og það sé um einhver ofurlaun að ræða hjá því fólki sem vinnur þessi störf. Hafi þessir atvinnurekendur skömm og svívirðu fyrir lítilsvirðinguna.
Sjómannasamband Íslands hvetur stéttarfélög og launafólk á Íslandi að standa gegn þessari svívirðu með ráðum og dáð. Látum ekki gervistéttarfélög komast upp með ósannindi og moðreyk. Stöndum þéttan vörð um það sem verkalýðshreyfingin hefur náð fram með áratuga baráttu sinni.“