fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Rætt um að leigja flugvél til að flytja inn hunda vegna ófremdarástands – „Þetta eru gæludýrin okkar“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 9. desember 2024 21:00

Erna Sigríður Ómarsdóttir formaður HRFÍ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ófremdarástand er hjá hundaræktendum og þeim sem vilja flytja hunda til Íslands eftir að Icelandair lokaði á flutning gæludýra í farþegaflugi. Hundaræktendur ræða nú saman um að leigja flugvél til þess að koma hundum til landsins.

„Það er ófremdarástand í innflutningi hunda,“ segir Erna Sigríður Ómarsdóttir, formaður Hundaræktarfélags Íslands (HRFÍ).

Ástæðan er sú að þann 1. nóvember síðastliðinn hætti flugfélagið Icelandair að flytja inn gæludýr með farþegaflugi. Langflest gæludýr hafa komið með þessum hætti til landsins. „Um 80 prósent af hundum hafa komið með þeim. Það var því skellur þegar lokað var á það,“ segir Erna.

800 á ári

Fram að þessu hafa um 800 hundar og kettir verið fluttir inn árlega. Dýrin máttu vera í farþegarými með eiganda sínum ef þau voru undir ákveðinni þyngd. Annars urðu þau að vera í farangursrýminu. Eftir það hafa þau farið í einangrunarstöðvar í Höfnum og Móseli.

Play flytur ekki inn dýr og hafa ekki þann búnað sem til þarf. Búnaður er til í einni fraktvél Icelandair en að sögn Ernu er hann bilaður sem stendur.

Sum erlend flugfélög sem fljúga til Íslands, til dæmis SAS, hafa leyft innflutning á dýrum. En eftir að matvælaráðuneytið breytti reglugerð um flutning hunda og katta hefur gætt misskilnings víða og telja mörg erlend flugfélög að það sé einfaldlega bannað að flytja inn dýr til Íslands. Erna segir að HRFÍ hafi heyrt margar sögur af fólki sem hafi fengið þessi svör þegar það hefur óskað eftir flutningi. Einnig að HRFÍ sé í samtali við ýmis erlend flugfélög til þess að reyna að leiðrétta þennan misskilning sem ríkir.

Hluti af fjölskyldunni

En hvers vegna er það svo mikilvægt að flytja inn hunda til landsins?

„Fyrir hundaræktendur er þetta mikilvægt fyrir kynbætur og genapúlíu í tegundastofnum,“ segir Erna. „En þetta er líka rosalega mikið notað af fólki sem er að flytja heim með gæludýrin sín. Þetta eru gæludýrin okkar. Þetta er hluti af fjölskyldunni.“

Hún segir hræðilegt ef að fólk jafn vel hætti við að flytja heim, til dæmis eftir nám, af því að það getur ekki flutt gæludýrin sín með sér til Íslands.

Bíða eftir nýjum ráðherra

Síðan Icelandair breytti sínum reglum um þar síðustu mánaðamót hefur HRFÍ verið í samtali við Matvælastofnun um aðgerðir til að bæta úr þessu. Var ákveðið að fjölga heimkomudögum í einangrun úr þrjá í fimm. Þetta opnar á fleiri möguleika fyrir innflytjendur dýra.

Erna segir að nú sé beðið eftir því að ný ríkisstjórn verði mynduð og að nýr ráðherra taki við lyklavöldunum í matvælaráðuneytinu til að hægt sé að eiga samtal um framtíðina.

Ræða um að leigja vél

Á meðan eru hundaræktendur í öngum sínum. Innan þeirra raða eru uppi hugmyndir um að leigja einkavél til að flytja inn dýr. En það er vitaskuld mun dýrara ferli.

„Þetta er miklu meiri kostnaður en að geta tékkað dýrið þitt inn sem farangur. Margfalt meiri,“ segir Erna. „Innflutningsferlið er nú þegar mjög þungt og flókið. Það fylgir þessu mikið af bólusetningum, læknaheimsóknum og ýmsu öðru. Þetta bætir ekki ástandið.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt