Fjölskyldan; Bashar, eiginkona hans Asma og þrjú uppkomin börn, flúðu land eftir að uppreisnarmenn hrifsuðu völdin í Sýrlandi um helgina og bíður þeirra nú nýtt líf í skjóli Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Ljóst er að ekki mun fara illa um Assad-fjölskylduna í Moskvu enda er talið að eigur hennar nemi um tveimur milljörðum Bandaríkjadala, 276 milljörðum króna á núverandi gengi.
Þetta er samkvæmt mati bandarískra yfirvalda, að því er fram kemur í frétt Mail Online, og liggja þessir peningar víða; til dæmis á aflandsreikningum, í skúffufyrirtækjum og í fasteignum svo eitthvað sé nefnt.
Talið er að stórfjölskylda Assads hafi keypt á þriðja tug fasteigna í Moskvu á undanförnum árum – íbúðir og hús sem metin eru á rúma fimm milljarða króna.
Þannig er frændi Bashars, Mohammed Makhlouf, talinn hafa keypt að minnsta kosti 18 glæsilegar íbúðir í háhýsahverfi í Moskvu ekki alls fyrir löngu. Um er að ræða eitt hæsta íbúðarhús Evrópu og eru moldríkir rússneskir forstjórar og framkvæmdastjórar á meðal íbúa þar.
Eiginkona Bashar al-Assad heitir Asma al-Assad og er hún læknadóttir sem er fædd í London. Asma, er tæplega fimmtug að aldri, en hún hefur á undanförnu rúmu ári glímt við alvarlega tegund hvítblæðis. Hún er sögð hafa flúið frá Sýrlandi ásamt dóttur sinni til Rússlands í lok nóvember þegar ljóst þótti í hvað stefndi.
Yfirvöld í Moskvu staðfestu í morgun að Assad-fjölskyldunni hefði verið veitt hæli í Moskvu en Dmitry Peskov, talsmaður Pútíns, vildi ekki tjá sig neitt frekar um það eða hvar fjölskyldan væri niður komin.
Assad-fjölskyldan hefur komist í fréttirnar á undanförnum árum fyrir eyðslusemi og greindi Wikileaks til dæmis frá því árið 2012 að Asma hefði keypt ný húsgögn í forsetahöllina fyrir tæpar 50 milljónir króna og keypt sér skó fyrir rúma milljón á stuttu tímabili.
Synir þeirra Bashars og Asma eru 24 og 21 árs og svo eiga þau 22 ára dóttur. Búist er við því að þau muni búa í Rússlandi næstu árin ásamt foreldrum sínum. Bent er á það í umfjöllun Mail Online að tengsl Assad-fjölskyldunnar við Rússland séu býsna náin og þannig hafi elsti sonur hjónanna stundað nám við Ríkisháskólann í Moskvu og skrifað lokaritgerð sína á rússnesku. Hann útskrifaðist úr náminu í fyrra og var móðir hans viðstödd útskriftina.