fbpx
Miðvikudagur 05.febrúar 2025
Fréttir

Kærasti Bryndísar Klöru var á vettvangi en fær ekki réttargæslumann

Ritstjórn DV
Mánudaginn 9. desember 2024 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur kveðið upp úrskurð í máli sem varðar hnífsstunguárás sem gerð var á hóp ungmenna á Menningarnótt, í lok ágúst, með þeim afleiðingum að eitt þeirra, Bryndís Klara Birgisdóttir, lést. Lögð hefur verið fram ákæra í málinu en þessi úrskurður varðar áfrýjun á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem synjaði kærasta Bryndísar Klöru, sem var á vettvangi þetta kvöld, um að fá skipaðan réttargæslumann og um leyfi til að gera bótakröfu á hendur hinum ákærða. Landsréttur staðfesti fyrrnefndu niðurstöðuna en vísaði hinni síðarnefndu aftur heim í hérað.

Ákæra birt gegn piltinum sem banaði Bryndísi Klöru

Umræddur piltur var meðal þeirra fimm ungmenna sem sátu í bíl þegar hinn ákærði braut hliðarrúðu og réðst að þremur þeirra með hníf. Tvö þeirra hlutu áverka en Bryndís Klara lést. Fimm bótakröfur voru gerðar í ákærunni og krafðist kærastinn bóta vegna miska sem hann hefði orðið fyrir.

Þegar málið var þingfest í lok nóvember fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var óskað eftir því að kærastanum yrði skipaður réttargæslumaður. Dómari taldi hins vegar ekki lagaskilyrði vera til staðar til að verða við beiðninni. Lögmaður hins ákærða krafðist þá að bótakröfu piltsins yrði vísað frá og varð dómari við því. Vísaði lögmaðurinn til þess að ákæran bæri það með sér að hann væri ekki brotaþoli þótt hann hefði tengst atburðarásinni með tilteknum hætti.

Varð fyrir áfalli

Pilturinn var á vettvangi þegar lögreglan kom á staðinn og samkvæmt rannsóknargögnum hafi hann orðið fyrir áfalli. Auk þess að hafa verið kærasti Bryndísar Klöru væri ungi maðurinn bróðir þess drengs sem hlaut áverka í árásinn.

Héraðsdómur sagði árásina hafa valdið piltinum miska en hann teldist ekki brotaþoli samkvæmt lögum um meðferð sakamála og því var bótakröfu hans vísað frá og þá um leið kröfu hans um að hann fái skipaðan réttargæslumann.

Landsréttur er hins vegar ekki sammála Héraðsdómi Reykjavíkur um að pilturinn geti ekki haft uppi bótakröfu í málinu. Landsréttur segir að samkvæmt lögum um meðferð sakamála geti brotaþoli og hver sá sem telji sig hafa öðlast einkaréttarkröfu á hendur sakborningi vegna refsiverðrar háttsemi leitað til dóms um kröfuna, í viðkomandi sakamáli. Réttur til að hafa uppi bótakröfu sé þannig ekki bundinn við brotaþola. Þeir sem telji sig hafa eignast slíka kröfu vegna refsiverðrar háttsemi sakbornings, svo sem aðstandendur brotaþola, geti því haft uppi slíkar kröfur í sakamáli. Frávísun héraðsdóms á bótakröfu piltsins, á hendur þeim sem ákærður er fyrir að verða henni að bana, var því felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnislegrar meðferðar.

Beindist ekki að honum

Þegar kemur að kröfu piltsins um að honum yrði skipaður réttargæslumaður tók Landsréttur hins vegar undir með Héraðsdómi Reykjavíkur.

Landsréttur segir í sinni niðurstöðu að samkvæmt lögum um meðferð sakamála sé brotaþoli sá maður sem kveðst hafa orðið fyrir misgerð af völdum afbrots og enn fremur sá sem telur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af refsiverðri háttsemi, enda hafi hún beinst að honum sjálfum. Aðrir en þeir sem afbrot hefur beinlínis beinst að, til að mynda aðstandendur, teljist því ekki vera brotaþolar í skilningi laganna.

Landsréttur segir að af tengslum piltsins við atburðarásina sem leiddi til ákærunnar sé ekki hægt að ráða að hin refisverða háttsemi hafi beinst að honum í lagalegum skilningi. Eins og áður segir var hann í bílnum, ásamt Bryndísi Klöru og þremur öðrum ungmennum, þegar hinn ákærði hóf árás sína með því að brjóta hliðarrúðu en var ekki einn af þeim sem varð fyrir sjálfri hnífsstunguárásinni. Landsréttur segir því lagaskilyrði ekki vera til staðar til að skipa honum réttargæslumann og var því þessi hluti úrskuðar Héraðsdóms Reykjavíkur staðfestur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Ekkert lát á verðhækkunum á kakói, kaffi, gulli og nautakjöti

Ekkert lát á verðhækkunum á kakói, kaffi, gulli og nautakjöti
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Brandari sem varð að alvöru hlaut ekki náð fyrir augum mannanafnanefndar

Brandari sem varð að alvöru hlaut ekki náð fyrir augum mannanafnanefndar
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Milljónir vantar hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga og fyrrverandi stjórnendur grunaðir um lögbrot

Milljónir vantar hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga og fyrrverandi stjórnendur grunaðir um lögbrot
Fréttir
Í gær

Sótt að Gunnari Þórðarsyni: Kröfðust þess að leigjandi íbúðar hans yrði borinn út – Segja að börnin þori ekki heim til sín

Sótt að Gunnari Þórðarsyni: Kröfðust þess að leigjandi íbúðar hans yrði borinn út – Segja að börnin þori ekki heim til sín
Fréttir
Í gær

Oddvitar skora á Guðrúnu að bjóða sig fram

Oddvitar skora á Guðrúnu að bjóða sig fram
Fréttir
Í gær

Fær skilorð fyrir að verða Ibrahim að bana

Fær skilorð fyrir að verða Ibrahim að bana