Hinum illa þokkaða einræðisherra í Sýrlandi, forsetanum Bashar al-Assad, hefur verið steypt af stóli og uppreisnarmenn tekið völdin. Margir fagna falli Assads en margar spurningar vakna um afleiðingar valdaránsins og áhrif sviptinganna í Sýrlandi á heimsmálin í heild.
Hilmar Þór Hilmarsson er prófessor við Háskólann á Akureyri, hagfræðingur, sérfræðingur í alþjóðaviðskiptum og þekktur álitsgjafi um alþjóðamál. DV leitaði til um mat á stöðunni sem komin er upp í Sýrlandi. Hilmar segir að fall Assads veiki stöðu Rússa í Miðausturlöndum:
„Þarna fer meðal annars fram stórveldasamkeppni milli Bandaríkjanna og Rússlands, bæði stórveldin hafa blandast í þessi átök. Rússar hafa stutt Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og hafa haft aukin áhrif í Miðausturlöndum í gegnum hann. Fráhvarf al-Assad veikir stöðu Rússa sem stórveldis í þessum heimshluta. Svo hafa Tyrkir dregist inní þessi átök vegna suðurlandamæra við Sýrland og flóttamannastraums frá Sýrlandi til Tyrklands vegna átaka þar. Þetta hefur skapað spennu á milli Sýrlands og Tyrklands. Íran, bandamaður Rússlands, hefur stutt Sýrland og al-Assad. Ísrael blandast líka í málið og nýlega gerði Ísrael árás á ræðismannsskrifstofu þeirra í Damaskus, höfuðborg Sýrlands.“
Himar segir að mikil óvissa ríki um hvort fall Assads auki öryggi á svæðinu eða ekki:
„Það er skiljanlegt að margir fagni því að al-Assad hafi verið steypt af stóli en stóra spurningin er hvað tekur við í Sýrlandi? Mun fráhvarf Bashar al-Assad auka öryggi á svæðinu eða ekki? Það var mikill fögnuður víða þegar Saddam Hússein fór frá völdum í Írak og þegar Muammar Gaddafi fór frá völdum í Lýbíu en svo má deila um það hvort það sem tók við leiddi til framfara. Ísraelar hafa undanfarið tekið af lífi leiðtoga Hamas og Hezbollah en gerðu ekki slíkar tilraunir með leiðtoga Sýrlands. Ég held að það sé meðal annars vegna þess að þeir mátu stöðuna þannig að ekki væri víst að betra tæki við ef al-Assad færi frá. T.d gætu öfga-íslamistar náð völdum í Sýrlandi. Það er því mikil óvissa framundan.“
Hilmar bendir á að ástandið sé mjög bágborið í Sýrlandi. Mikil óvissa ríki um framtíðina í þessum heimshluta:
„Landið er í rúst efnahagslega og stofnanir mjög veikar og átök innanlands og í kringum landið. Svona staða er gróðrarstía fyrir fyrir upplausn og frekari átök. Rússar aðstoðuðu al-Assad að þessu sinni með loftvörnum en ekki með landher eins og þurft hefði. Ég býst við að Úkraínustríðið sé meginástæða þess, rússneski herinn er upptekinn í Úkraínu. Það mikil óvissa framundan í þessum heimshuta og enn mikil hætta á að átök breiðist út og alger óvissa um framvinduna í Sýrlandi.“
Aðspurður um hvort þeir sem tekið hafa völdin í Sýrlandi séu íslamskir öfgamenn, segir Hilmar:
„Það er mikil óvissa en átökin byrja í Norður-Sýrlandi, nálægt landamærunum við Tyrkland þar sem borgin Aleppo féll. Sumir segja að uppreisnarmenn hafi haft einhvern stuðning frá Tyrklandi en það er erfitt að fullyrða nokkuð um það með vissu. Það er líklegt að meðal uppreisnarmanna séu islamskir öfgamenn. Það hafa verið deilur milli Tyrklands og Sýrlands vegna fóttamanna yfir landamæri Tyrklands. Þetta blandast líka inn í átökin milli Írans og Ísrael. Íran hefur viljað hafa landbrú í gegnum Írak og Sýrland til að koma vopnabúnaði til Hezbollah. Líklegt er að Bandaríkin gætu dregist inn í þessi átök vegna stuðnings við Ísrael. Fyrir Rússa hefur sambandið við Sýrland verið mikilvægt til að sýna áhrif Rússa. Það er varla tilviljun að þetta gerist á meðan Rússar eru uppteknir í stríði í Úkraínu.“