Tveir rúmenskir karlmenn voru handteknir á Malpensa flugvellinum í Mílanó þann 24. nóvember síðastliðinn með stolið góss frá Íslandi. Kona, sem talin er hafa verið í samstarfi við þá, var handtekin á Íslandi.
Þetta kemur fram á Poliziadistato, fréttavef ítölsku lögreglunnar.
Mennirnir, sem eru 32 og 34 ára gamlir, voru stöðvaðir og síðar handteknir eftir komuna frá Keflavík eftir ábendingu frá alþjóðalögreglunni Interpol. Íslenska lögreglan hafði þá þegar handtekið konuna og var að leita að samverkamönnum hennar.
Í rannsókn málsins kom fram að mennirnir tveir höfðu fengið rauðan bakpoka, fullan af stolnu góssi, frá konunni.
Þegar flugvélin lenti biðu lögreglumenn eftir mönnunum en þeir reyndu að blanda sér inn í hóp komufarþega. Með þeim var ólögráða barn. Gerð var ítarleg skoðun á mönnunum. Annar þeirra var með grænan bakpoka og reyndist hinn áðurnefndi rauði bakpoki falinn inni í honum.
Í bakpokanum fundust 10 Apple iPhone símar og 3 nýir Samsung símar að heildarverðmæti um 1,5 milljón króna, 2 Verace ilmvatnsflöskur, 2 Blutooth heyrnartól og 4 greiðslukort.
Í yfirheyrslu gátu mennirnir ekki gert grein fyrir því hvernig góssið komst í þeirra hendur. Annar þeirra er á sakaskrá í Ítalíu. Allir munirnir voru gerðir upptækir og málið er nú til rannsóknar.