Erlent par sem var á ferðalagi um Ísland í sumar stoppaði á göngu sinni til þess að drekka úr það sem virtist vera tær lækjarspræna. Parið, sem er frá Detroit borg í Bandaríkjunum, tók myndband af þessari huggulegu stundu. En sú stund átti eftir að breytast í martröð skömmu seinna.
Aðeins nokkrum metrum ofar rákust þau á hræ af dauðu dýri í læknum, líklegast kind.
„Við fengum algjöra viðbjóðstilfinningu þegar við áttuðum okkur á því að við höfðum verið að drekka úr vatninu neðar í læknum,“ sagði konan, sem heitir Lainey, við bandaríska tímaritið Newsweek.
Lainey deildi myndbandi af atvikinu á Instagram þann 29. ágúst síðastliðinn. Síðan þá hafa 6,8 milljón manns horft á það.
View this post on Instagram
„Drekkið úr íslenskum lindum. Þetta er tærasta vatn í heimi!“ skrifaði Lainey yfir myndbandið. „Vissum ekki að það væri dauð kind aðeins 10 fetum ofar í læknum. Við lærðum okkar lexíu, alltaf að horfa upp lækinn.“
Margir netverjar hafa sett athugasemdir við færsluna. „Einhver hefur ekki horft nógu mikið á Bear Grills,“ sagði einn. Annar nefndi að fleira en hræ gæti leynst í lækjarsprænum. „Aldrei drekka úr vatni þar sem er mikið af lausum búfénaði, nema þú viljir drekka kúkavatn.“