fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Ákeyrsla á bílastæði eyðilagði framtíðina sem hún stefndi að

Ritstjórn DV
Mánudaginn 9. desember 2024 15:30

Slysið átti sér líklega stað á bílastæði Borgarholtsskóla. Mynd: Skjáskot/Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Vátryggingafélag Íslands (VÍS) af bótakröfu konu sem varð fyrir varanlegu líkamstjóni í kjölfar þess að bifreið skólafélaga hennar var ekið á hana á bílastæði skólans. Konan sem þá stundaði nám í bílamálun og bifreiðasmíði gat ekki lokið náminu vegna þess líkamstjóns sem hún hafði orðið fyrir. Krafðist hún hærri bóta en hún hafði þegar fengið, vegna skertra tekjumöguleika og þess að hún hafi ekki getað unnið við það fag sem hún var að læra. Kröfunni var hins vegar hafnað á þeim grundvelli að konan hefði ekki verið komin nógu langt með námið þegar slysið varð.

Nafn skólans hefur verið afmáð úr dómnum en líklega er um að ræða Borgarholtsskóla sem er, eftir því sem DV kemst næst, sá eini í Reykjavík sem býður upp á slíkt nám.

Konan gerði fjórar misháar bótakröfur í málinu. Eina aðalkröfu og þrjár varakröfur. Aðalkrafan var um 11,1 milljón króna auk vaxta og dráttarvaxta að frádregnum 4,6 milljónum sem VÍS hafði þegar greitt henni.

Slysið varð í mars 2019. Í dómnum segir að konan hafi við ákeyrsluna farið upp á vélarhlíf bifreiðarinnar og fallið af henni á götuna. Við þetta fékk hún högg á hægra hné, áverka neðst á mjóbaki og hægri mjöðm. Segir í dómnum að óumdeilt sé að þetta líkamstjón sem konan varð fyrir sé varanlegt og hafi skert getu hennar til að afla tekna til framtíðar.

Bifreið skólafélagans var vátryggð hjá VÍS og því var tjónið tilkynnt þangað. Í læknisfræðilegu mati kom fram að hún hefði lokið náminu en vegna áverkanna byggi hún við skerðingu á álagsgetu og úthaldsþoli til að starfa við bílamálun og bifreiðasmíði þar sem slík störf geti verið líkamlega krefjandi. Sagði konan að áverkanir hafi háð henni í hinum verklega hluta námsins.

Varanleg örorka

Loks gerði konan frekar bótakröfur á hendur VÍS vegna varanlegrar örorku og miðaði þá við meðaltekjur iðnmenntaðra við blikksmíði og plötusmíði. Fullnaðaruppgjör fór fram í mars 2021 en konan gerði fyrirvara við það tekjuviðmið sem útreikningar VÍS byggðu á.

Á vorönn 2019 átti konan aðeins eftir að ljúka þremur áföngum í bóklega hluta bifreiðasmíði en hafi lokið 62 af 109 einingum í bóklega hluta bílamálunar. Hún náði að klára allt bóknámið í lok árs 2019 en lauk ekki verklega hlutanum sem felst í því að nemandi þarf að fara í starfsþjálfun með því að komast á samning. Í dómnum kemur fram að Covid-heimsfaraldurinn hafi átt sinn þátt því.

Konan hefur síðan þá starfað við almenn verkamannastörf.

Í röksemdum konunnar segir að nemendur í bifreiðasmíði og bílamálun hafi átt að koma sér sjálfir á samning hjá iðnmeistara til að ljúka starfsnámi. Með því að ljúka bóklega náminu teljist nemandi vera útskrifaður af hálfu skólans.

Hún hafi því verið í aðstöðu þegar slysið varð til að hefja störf undir handleiðslu meistara í bílasmíði og afla sér sveinsprófs. Með slysinu og þeim áverkum sem hún hafi setið uppi með í kjölfarið hafi þær fyrirætlanir runnið út í sandinn. Þar af leiðandi eigi að miða bætur hennar við áðurnefndar meðaltekjur.

Búin að borga

VÍS vísaði til þess að félagið hefði þegar greitt konunni bætur vegna slyssins og krafðist sýknu af kröfum hennar um hærri greiðslur. Á þeim degi sem slysið varð hafi konan ekki verið búin að ljúka bóklega náminu og ekki verið byrjuð í tilskilinni starfsþjálfun en bifreiðasmíði sé lögverndað starfsheiti og ekki sé nægilegt að ljúka bóknámshlutanum til að fá leyfi til að starfa við fagið. Alltaf þurfi að ljúka starfsþjálfun undir handleiðslu meistara. Þegar allt sé samantalið hafi hún enn án töluvert í land við að ljúka náminu þegar slysið var og því ekki hægt að fallast á frekari bótakröfur hennar á grundvelli líklegra tekna hennar í starfi við bifreiðasmíði eða bílamálun.

Vildi VÍS einnig meina að konunni hefði ekki tekist að sýna fram á að vegna líkamstjóns hennar hafi ekki verið mögulegt fyrir hana að hefja starfsþjálfunina.

Héraðsdómur Reykjavíkur tekur í sinni niðurstöðu undir með VÍS um að horfa skuli til þess að konan var ekki byrjuð í því starfsnámi sem nauðsynlegt er til öðlast starfsréttindi við bifreiðasmíði og einnig bílamálun þegar slysið varð. Námslok hennar hafi ekki verið fyrirséð þar sem hún hafi samanlagt lokið rétt yfir helmingi allra tilskilinna eininga þegar slysið varð. Því séu ekki forsendur samkvæmt skaðabótalögum til að miða bótagreiðslur hennar við mögulegar tekjur sem hún hefði getað haft í þeim störfum sem hún var mennta sig til að sinna.

VÍS var því sýknað af kröfum hennar en eftir situr konan með þá staðreynd að ákeyrslan á bílastæði skólans í mars 2019 eyðilagði þá framtíð sem hún hafði stefnt að með námi sínu.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“
Fréttir
Í gær

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var
Fréttir
Í gær

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður
Fréttir
Í gær

Sigurður Fannar ákærður fyrir morð á dóttur sinni

Sigurður Fannar ákærður fyrir morð á dóttur sinni
Fréttir
Í gær

Manndráp á Akureyri – 12 ára fangelsi

Manndráp á Akureyri – 12 ára fangelsi