fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fréttir

Fær ekki að losna við ruslatunnurnar

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 7. desember 2024 10:30

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Beiðni húseiganda í Reykjavík um að borgin fjarlægi sorptunnur við hús hans og hætti um leið að rukka hann fyrir tunnurnar, auk þess að endurgreiða honum þau gjöld sem hann hefur þegar innt af hendi vegna þeirra, hefur verið hafnað. Húseigandinn sneri sér þá til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en hafði ekki erindi sem erfiði.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að í upphafi þessa árs bætti Reykjavíkurborg við fasteignagjöld mannsins gjöldum vegna sorptunnanna. Annars vegar 240 lítra tvískiptrar tunnu fyrir blandað sorp og matarleifar en fyrir hana var gjaldið 52.500 krónur og hins vegar 240 lítra tunnu fyrir pappírsúrgang og plast en fyrir hana greiddi maðurinn 10.500 krónur. Samanlagt nam fjárhæð gjaldanna því 63.000 krónum.

Húseigandinn sagði í kæru sinni til nefnddarinnar að hann hafi árangurslaust óskað eftir því að sorptunnurnar yrðu fjarlægðar. Han sagði þær óþarfar þar sem hann hendi litlu rusli og fari með það sjálfur á móttökustöð. Tunnurnar hafi verið tómar allt árið og þar með sé ekki þörf á því að leggja gjöld á hann vegna þeirra. Hann hafi óskað eftir því við Reykjavíkurborg, í febrúar á þessu ári, að tunnurnar yrðu fjarlægðar og kostnaður vegna þeirra dreginn frá fasteignagjöldum. Hafi hann í framhaldi átt í nokkrum samskiptum við starfsmenn Reykjavíkurborgar þar til beiðni hans var synjað síðar í þessum sama mánuði.

Skyldan að hafa tunnu

Frekari upplýsingar um samskipti húseigandans og borgarinnar koma ekki fram í úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og því ekki ljóst hvernig borgin hefur rökstutt það fyrir húseigandanum að hann verði að vera með sorptunnur við hús sitt.

Umhverfisstofnun segir á vef sínum að samkvæmt lögum um hringrásarhagkerfi sem tóku gildi í upphafi síðasta árs sé það ekki í boði að sleppa því að vera með sorptunnur við heimili sitt og fara með sorpið í grenndargáma í staðinn.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að með lögum um hringrásarhagkerfi hafi öllum verið gert skylt að flokka úrgang sinn og setja upp tunnur fyrir pappír, plast, matarleifar og blandaðan úrgang innan lóðar. Ekki sé til almenn regla um fjölda tunna fyrir hverja íbúð og geti íbúar því ákveðið fjöldann og sé kostnaðurinn samkvæmt því.

Lög um hringrásarhagkerfi eru raunar samheiti um breytingar á nokkrum lögum sem gerðar voru árið 2021 en tóku gildi í upphafi árs 2023. Meðal þeirra eru lög um meðhöndlun úrgangs. Í þeim lögum segir að koma skuli upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi. Söfnunin skuli fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila.

Of seinn að kæra

Í lögunum eru einnig lagðar margvíslegar skyldur á sveitarfélög um að hirða úrgang sem safnað hefur verið á lóðum.

Orðið sorptunnur er ekki notað í lögunum en áðurnefnd ákvæði virðast liggja að baki staðhæfingum um að öllum sé skylt að hafa slíkar tunnur við hús sín.

Húseigandinn lagði fram kæru sína til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í byrjun þessa mánaðar, um 10 mánuðum eftir synjun borgarinnar. Kærunni var hins vegar vísað frá á þeim grundvelli að hún væri of seint fram komin en kærufrestur til nefndarinnar er 30 dagar eftir að kæranda hefur verið gert kunnugt um þá ákvörðun sem viðkomandi kærir.

Í úrskurðinum segir að húseigandanum hafi bæði verið kynnt við álagningu fasteignagjalda í janúar og við synjun borgarinnar á beiðni hans í febrúar að mögulegt væri fyrir hann að kæra málið til nefndarinnar og þar með hafi honum verið kunnugt um rétt sinn til að leggja fram kæru.

Húseigandinn situr því uppi með sorptunnur sem hann segist ekki hafa nein not fyrir.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Páll ekki hrifinn af „derringi“ Halldórs Benjamíns – Myndi ekki henta sem formaður Sjálfstæðisflokksins

Páll ekki hrifinn af „derringi“ Halldórs Benjamíns – Myndi ekki henta sem formaður Sjálfstæðisflokksins
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Nýjustu refsiaðgerðir Biden gegn Rússlandi eru sagðar „gjöf“ til Trump

Nýjustu refsiaðgerðir Biden gegn Rússlandi eru sagðar „gjöf“ til Trump
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Þetta gætu afleiðingarnar orðið ef gýs í Bárðarbungu

Þetta gætu afleiðingarnar orðið ef gýs í Bárðarbungu
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Lýsa yfir óvissustigi vegna Bárðarbungu – Stærsti skjálftinn 5,1

Lýsa yfir óvissustigi vegna Bárðarbungu – Stærsti skjálftinn 5,1